145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

barnabætur.

[13:44]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það hefur sýnt sig og er eitthvað sem við höfum verið að fylgjast með að fæðingum hefur fækkað. Það er að mínu mati ein af afleiðingum hrunsins, þeirri kreppu sem heimilin fóru í gegnum í framhaldi af bankahruninu. Við höfum séð þegar við horfum til reynslu annarra þjóða sem hafa farið í gegnum mikla efnahagserfiðleika, að þá dregur úr fæðingum, eins og t.d. í Bandaríkjunum eftir kreppuna miklu í kringum 1930 og svo aftur í olíukrísunni í kringum 1970. Þetta er nokkuð sem hefur sýnt sig að gerist ekki bara hér heldur víða annars staðar. Það sem virðist skipta mestu máli varðandi fjölda fæðinga eru efnahagslegar aðstæður fjölskyldna þannig að ég held að ég geti þar með fært ágætisrök fyrir því að sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins, að tryggja að fólk fái góð og vel launuð störf, ætti einmitt að skila sér í því að fólk treysti sér aftur til þess að stofna heimili og eignast börn.

Það má svo sem færa það líka yfir á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi barnabæturnar, að fyrri ríkisstjórn lagði mikla áherslu á að hækka barnabætur en það er ekki hægt að sjá að það hafi verið beint samband þar á milli. Það er fyrst og fremst að tryggja að fólk hafi vinnu og fái góð laun sem er undirstaðan fyrir frekari ákvarðanir sem fólk tekur varðandi framtíð sína.

Varðandi breytingu á fæðingarorlofskerfinu er rétt sem hv. þingmaður segir, það liggur fyrir að ég hef í hyggju að leggja fram frumvörp sem grundvallast á þeim tillögum sem komu frá nefnd á mínum vegum sem fyrrverandi hv. þm. Birkir Jón Jónsson stýrði varðandi breytingar á fæðingarorlofskerfinu, auk þess sem líka (Forseti hringir.) er gert ráð fyrir ákveðnum fjármunum samkvæmt ríkisfjármálaáætlun í hækkun fæðingarorlofsins.