149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

utanspítalaþjónusta.

[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um þetta. Það kemur ítrekað fram, og raunar í heilbrigðisstefnu sem er nú í miðri síðari umr. hér á Alþingi, að til að tryggja sem jafnastan aðgang íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu þurfa tveir þættir að vera tryggir. Það er annars vegar öflug fjarheilbrigðisþjónusta og hins vegar öflugir sjúkraflutningar eða utanspítalaþjónusta, þó að mönnun á staðnum sé auðvitað allra besta leiðin. Þetta eru þær áskoranir sem við horfumst í augu við, en hvort tveggja, bæði fjarheilbrigðisþjónustan og utanspítalaþjónustan, er ofarlega á mínu borði. Ég lít svo á að við verðum að komast frá því að hlaupa á milli staða og slökkva elda og við þurfum að eiga heildstæða stefnu þar sem við höfum heildarsýn á þessi mikilvægu úrlausnarefni.