149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það er sannarlega að koma í ljós. Viðtal við hæstv. fjármálaráðherra í breska blaðinu Daily Telegraph í apríl í fyrra ef ég man rétt hefði átt að vera ákveðin vísbending en þar talaði hann einmitt um þennan sæstrengsáhuga og virðist telja sæstreng raunhæfan kost. Svo bætast við fréttir í gær þar sem verkefninu er lýst nánast út í tæknileg atriði og virðist, a.m.k. að mati þeirra sem rætt er við, eingöngu stranda á biðinni eftir því að breski viðskiptaráðherrann veiti staðfestingu á skilgreiningu Íslands sem einhvers konar orkuvers fyrir Bretland.

Ég held að sá tími sé kominn að við eigum einfaldlega að fara að ræða áhrif þessa orkupakka eins og þau verða þegar kominn verður sæstrengur. Auðvitað vonumst við til að ekki verði lagður sæstrengur en verði orkupakkinn samþykktur bendir allt til þess að eðlilegt framhald af því sé sæstrengur og þar af leiðandi gildi öll ákvæði orkupakkans, m.a. um tengingar milli landa.

Ég tel að það væri gott fyrir umræðuna svo hún þroskist áfram eins og hún hefur vissulega verið að gera að við færum að ræða málin út frá því hvernig þetta verður þegar markmið orkupakkans, þar með talið markmið um tengingu milli landa, hafa að fullu náð fram að ganga. Þá er líka rétt að horfa til áhrifanna þegar fjórði orkupakkinn hefur bæst við, enda ekki annað að heyra á ríkisstjórninni eða fulltrúum hennar en að hún telji þetta allt eina samfellu og að einn pakki kalli á þann næsta.