149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er ljóst og það hefur í sjálfu sér enginn mótmælt því að verði þetta að veruleika, sú innleiðing sem hér á sér stað, erum við að innleiða hugsunina, innleiða markmiðin, við erum að taka upp stefnu Evrópusambandsins í orkumálum. Við erum að gera hana að okkar.

Fjórði orkupakkinn er í lýsingum, þegar maður reynir að lesa yfirlit sem fylgir þeirri langloku allri, í rauninni bara framhald. Það er verið að ná betur utan um það markmið að vera með einn sameiginlegan orkumarkað. Þar kemur m.a. fram — ég tek fram að þetta er þýtt af okkar ágæta starfsfólki úr ensku og kann að vera einhver blæbrigðamunur á þessum texta og löggiltri þýðingu — með leyfi forseta:

„Upphaflega átti ACER-stofnunin, eins og það var lagt fram í orkupakka þrjú, aðallega að sinna eftirlitshlutverki, ráðgjafarhlutverki og samhæfingu. En þar sem fyrirsjáanlegt er að framtíðarorkumarkaðurinn mun þurfa mun meiri samvinnu yfir landamæri var það séð sem hugsanlegt vandamál að ekki væri til aðili sem hefði það hlutverk að hafa svæðisbundið eftirlit með öllum ríkjum óháð landamærum.“

Síðan kemur fram annars staðar í þessum texta að ACER muni hafa yfirumsjón með framtíðar svæðisbundnum einingum og þar með koma í veg fyrir hugsanleg vandamál sem gætu komið upp ef hvert ríki fyrir sig væri að stjórna sínum málum sem gæti haft neikvæðar afleiðingar á orkumarkaðinn og orkuneytendur.

Samkvæmt þessu er verið að færa þessari stofnun meira vald. Hvaða áhrif mun það t.d. hafa á þá stofnun sem á að sinna okkur, Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sem tekur reyndar við skipunum frá ACER? Erum við ekki að taka allt of stóran séns, miðað við það sem Friðrik Árni og Stefán Már skrifa í sinni greinargerð, ef við skoðum þetta ekki sérstaklega?