149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir mér er þetta býsna alvarlegt mál. Mér finnst alvarlegt mál að ekki eigi að staldra við, því að við erum ekki að fjalla um neitt smámál hérna. Við erum að fjalla um mögulegt framsal á völdum, hvort það fari gegn stjórnarskránni, við erum að tala um þjóðréttarlegar skuldbindingar. Við erum að innleiða hér raforkustefnu Evrópusambandsins. En nú getum við séð heildarmyndina mun betur. Ætlum við ekki að nýta okkur það?

Þegar ég sá þetta í síðustu viku og benti á það héðan úr ræðustól á miðvikudaginn var, að þetta væri fullklárað, var það fyrsta sem ég hugsaði: Heyrðu, þetta er í rauninni frábært. Nú getum við skoðað heildarmyndina. Nú getum við séð hvað það er sem við þurfum að varast og hvort það er eitthvað sem þar er sem gerir að verkum að við þurfum, ekki út af því að einhverjir skrýtnir Miðflokksmenn eru á móti orkupakka þrjú, heldur vegna þess að það hentar og borgar sig fyrir þjóðina, fyrir landið okkar, fyrir framtíðina, að staldra við og reyna að skoða heildarmyndina. Um það snýst þetta.

Ég velti því upp í ræðu minni áðan og mun halda áfram að fjalla um það — og mig langar að biðja hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá aftur með ræðu: Hverjar eru breytingarnar? Hver verður þróunin í þessum orkupakka sem nú bíður okkar frá þeim sem hér á að samþykkja? Það er stórfurðulegt, hæstv. forseti, ef fylgjendur þessa máls vilja ekki vita það. Ef þeir segja A hvað felst þá í því þegar þeir segja B í þessu? Hvert er næsta skref? Það er mjög sérstakt að menn skuli ekki vilja vita það.

Þess vegna er þetta tækifæri fyrir alla hugsandi þingmenn í rauninni að segja: Við verðum að skoða þetta út frá þessum nýju upplýsingum.