149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ræddi hér í ræðu minni fyrr í kvöld um stjórnarskrárvandann og ætlaði að tala um hann áður en ég hæfi umræðu um lagalega fyrirvarann. Ég var að fara yfir álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts sem hafa verið lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég var byrjaður á að fara yfir þetta og held áfram þar sem frá var horfið. Síðasta ræða mín var um frestun á stjórnskipunarvandanum og hvort það væri í boði að horfa fram hjá því sem segir í þeirra áliti að hluti af þessum reglum, sérstaklega 8. gr. reglugerðar nr. 713, brýtur langlíklegast í bága við stjórnarskrá og hvort unnt væri að loka augunum fyrir vandanum á meðan ekki reyndi á þessar reglur. Eins og ég orðaði það, hvort hægt væri að setja hann á bið á meðan ekki væri um sæstreng að ræða.

Svarið við þessu er að finna í greinargerð þeirra félaga. Nei, segja fræðimennirnir og segja að óhjákvæmilegt sé að taka afstöðu til slíkra álitaefna áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann. Þetta er að finna á bls. 25. Fræðimennirnir tiltaka einnig að ákvæði 8. gr., sem við höfum mikið rætt um, taki til ákvarðana sem ESA taki sem varða í raun beint og óbeint mikilvæga hagsmuni einstaklinga og lögaðila og einnig ríka almannahagsmuni tengda raforkukerfinu og nýtingu þess. Þetta er að finna á bls. 35 í álitinu. Síðan benda þeir félagar í því sambandi einnig á þau miklu áhrif sem ACER hefur á ákvarðanatöku ESA og fellur illa að tveggja stoða kerfi Evrópska efnahagssvæðisins, sem við höfum fjallað nokkuð um. Síðan segja þeir neðst á bls. 35 að hér fari ekki fram viðskipti með raforku yfir landamæri og bæta við, herra forseti: „Það breytir því þó ekki að innleiðing þriðja orkupakkans þarf að standast stjórnarskrána.“ Bara yfir höfuð, þótt ekki sé um neinn sæstreng að ræða.

Þá koma þeir að hugsanlegum afleiðingum af innleiðingu á reglum sem fara hugsanlega í bága við stjórnarskrá og segja á bls. 35:

„Í því sambandi verður að hafa hugfast að lagasetning sem brýtur gegn stjórnarskránni getur haft skaðlegar afleiðingar í för með sér, og skiptir þá í sjálfu sér ekki máli hvort slíkar afleiðingar koma fram strax við samþykkt laganna eða á síðari tímapunkti. Til að mynda getur lagasetning, sem brýtur gegn stjórnarskrá, bakað íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart einstaklingum og lögaðilum vegna tjóns sem þeir verða fyrir vegna slíkrar lagasetningar. Slík bótakrafa einstaklinga eða lögaðila á hendur íslenska ríkinu verður höfð uppi þegar tjón hefur orðið, en það getur í sjálfu sér gerst löngu eftir að viðkomandi lög eru samþykkt á Alþingi. Hvað sem líður hugsanlegum bótakröfum af þessum toga hefur vafi um stjórnskipulegt gildi innleiðingar þriðja orkupakkans í för með sér réttaróvissu sem ekki verður við unað.“

Svo mörg voru þau orð. Hversu skýrt er hægt að tala? Álit þeirra prófessors Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts er skýrt um að þeir telja verulegan vafa leika á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt hinni margumtöluðu 8. gr. rúmist innan stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Undir lok álitsgerðar sinnar á síðustu blaðsíðunni, bls. 44, benda þeir eins og í framhjáhlaupi á mögulega lausn eins og þeir nefna hana. Það er sú lausn sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að fara. Ég ætla örlítið að velta þeirri lausn fyrir mér í næstu ræðu því að ég sé að tími minn er búinn. Þessi lausn er sjö og hálf lína í lok álitsgerðarinnar sem telur 44 blaðsíður. Þetta er á síðustu blaðsíðunni eins og í framhjáhlaupi, neðst í þeirra áliti.