149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir hans spurningu og tilvitnun í þann ágæta lögfræðing Eyjólf Ármannsson sem sendi inn til utanríkismálanefndar og atvinnuveganefndar ítarlegar umsagnir um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og líka hin þingmálin, lagafrumvarpið og þingsályktunartillöguna sem eru í atvinnuveganefnd.

Ég hef rennt yfir umsagnir þessa lögfræðings og þykir mér mikið til koma. Hann bendir á ýmsa kanta málsins sem varpa ljósi á það frá ýmsum hornum. Ég veit til þess að hann býr í Noregi þannig að hann horfir kannski á þetta annars staðar frá og það er alltaf gott að fá sjónarmið úr mörgum áttum.

Varðandi innleiðinguna þá hef ég þá trú að svona gerist kannski ekki alfarið vitandi vits, alls ekki. Ég er búinn að lýsa því í mínum fyrri ræðum hvernig ég sé þetta fyrir mér. Ég vissi til þess að það var mikil andstaða við innleiðingu þessa orkuregluverks fyrir nokkrum mánuðum innan stjórnarflokkanna. Síðan birtist hugmynd um lagalegan fyrirvara, að það væri snjallt að innleiða þetta með lagalegum fyrirvara. Þá virtist öll andstaða fjara út. Hún hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég hef lýst því hvernig það gerðist. Auðvitað kynna ekki allir sér málin til hlítar eins og einhverjir hafa gert. Við erum komnir eitthvað áleiðis en kannski ekki nóg enn þá en hinir fylgja náttúrlega bara lestinni.