149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þetta sé nokkuð nærri lagi. Það hefur komið fram áður í umræðunni að þeir flokkar sem nú standa að þessari innleiðingu hafa áður verið þekktir fyrir að lúffa fyrir útlendingum. Í þessu máli skil ég æ minna eftir því sem lengra líður á umræðuna, ég skil ekki þörfina fyrir asann. Ég skil ekki þörfina fyrir að búa um málið eins og verið er að gera núna. Ég skil það ekki. Ég skil ekki af hverju menn fara ekki að ráðum bestu sérfræðinga þjóðarinnar um hvernig á að fara með málið. Mér er það algjörlega hulið.

Það er ekki eins og einn eða tveir aðilar vari við þessu máli. Það eru miklu fleiri en það. Ég þreytist ekki á að segja að ég skilji heldur ekki hvers vegna meiri hlutanum á Alþingi, ríkisstjórninni, er svona mikið í mun að fara fram með mál sem er í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Ég skil það bara ekki.

Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það ætti að vera hafið yfir flokkapólitík. Það ætti að vera hafið yfir það að við þyrftum að standa hér til að reyna að verja hagsmuni þjóðarinnar. Málið ætti að vera þannig búið að við gætum öll tekið saman höndum og afgreitt það með sæmilegum hætti. Því miður er það þannig að vegna þess hve vanbúið málið er og vegna þess hvað það lítur illa út verðum við að standa hér og reyna að verja þjóðina fyrir málinu. Við eigum ekki annan kost.