151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar hér við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021 að fara nokkrum orðum um áhersluatriði nefndarálits meiri hlutans áður en ég fer síðan í það sem kannski, eins og oft og tíðum vill verða, skiptir mestu máli, það sem ekki er sagt í nefndarálitinu. Hér er inngangur með hefðbundnum hætti en síðan kemur yfirferð um áherslumál í vinnu meiri hlutans. Þar er fyrst að nefna kafla sem snýr að stuðningi við Rauða krossinn og Landsbjörg, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Kallað var eftir viðbótarrökstuðningi vegna samtals 200 millj. kr. tillögu um framlög til Rauða krossins og Landsbjargar.“

Síðan er farið yfir það hvernig tekjur Rauða krossins drógust saman á árinu 2020, m.a. vegna þess að tekjur frá Íslandsspilum höfðu lækkað verulega, eða um rúm 50%. Síðan er farið með sama hætti yfir með hvaða hætti rekstur Landsbjargar þróaðist á sama tíma. Síðan segir, og það er ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega, með leyfi forseta:

„Samstæður félaganna hafa ekki uppfyllt skilyrði fyrir viðspyrnustyrkjum, lokunarstyrkjum, tekjufallsstyrkjum eða hlutabótaleið sem eru umfangsmestu úrræði stjórnvalda til að mæta tekjufalli.“

Þetta er auðvitað af sama meiði og við vorum að ræða hér, sennilega í fyrradag, þar sem verið var að fjalla um stuðning til íþróttahreyfinga. Umræðan spannst að nokkru leyti af því að þar var um að ræða framlengingu á þegar samþykktum lögum sem hefði nú í sjálfu sér átt að vera einfalt efni til úrlausnar en kallaði fram verulega umræðu, skiljanlega, því sjónarmiðið sem þar var verið að reyna að leiða fram voru vandræði félagasamtaka sem ekki skilgreinast sem íþróttafélög til að njóta stuðnings hins opinbera. Hér erum við þá komin aftur í fjáraukalög með viðbótarstuðning við tvö slík félög, Rauða krossinn annars vegar og Landsbjörg hins vegar. Það sem mig langaði til að vekja athygli á í þessu samhengi er að núna, 15 mánuðum eftir að Covid-ástandið brast á, erum við einhvern veginn enn þá að bregðast við ad hoc gagnvart samtökum eins og hér eru nefnd og erum enn með óleyst úrlausnarefni gagnvart ótal almennum félagasamtökum, skátahreyfingin og fleiri voru nefnd hér í umræðunni í fyrradag. Það er auðvitað sérstakt að undir lok þessa faraldurs, við vonum nú að meginþunga hans sé lokið, séum við enn þá í aðgerðum sem þessum og meira að segja með rökstuðningi sem á svo vel við það sem var hafnað fyrir tveimur dögum síðan í samhengi við félagasamtök eins og skátana, KFUM og KFUK og fleiri sambærileg. Hér er bara sagt skýrum orðum, aftur með leyfi forseta:

„Samstæður félaganna hafa ekki uppfyllt skilyrði fyrir viðspyrnustyrkjum, lokunarstyrkjum, tekjufallsstyrkjum eða hlutabótaleið …“ og hér erum við stödd hvað þessa þætti varðar á 15. mánuði.

Næst langar mig að fara yfir í mál sem snúa að hjúkrunarheimilunum. Eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 300 millj. kr. fjárveitingu í sjóð hjá Sjúkratryggingum Íslands, en í þann sjóð geta rekstraraðilar hjúkrunarrýma sótt viðbótarfjármagn ef þjónusta við einstaka heimilismenn er tímabundið eða varanlega verulega umfram hefðbundið framlag samkvæmt mati á hjúkrunarþyngd.“

Allt ber þetta auðvitað dálítið að þeim sama brunni að verið er að plástra stöðuna sem snýr að hjúkrunarheimilunum. Margir telja að hluti erfiðleika hjúkrunarheimila hvað samskipti við ríkið varðar sé tilhneiging heilbrigðisráðuneytisins til að ýta öllum rekstraraðilum sem með einhverjum hætti geta skilgreinst sem einkaaðilar, hvort sem það eru einkahlutafélög eða sjálfseignarstofnanir, með einum eða öðrum hætti inn í ríkisrekstrarformið. Manni sýnist á þeim viðbrögðum sem endurspeglast í þessu nefndaráliti að ætlunin sé ekki að reyna að leysa málið. Verið er að reyna að stinga dúsu upp í þá aðila sem verst hafa það. Staðreyndin er sú að búið er að kortleggja vandamálið býsna vel. Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, var formaður stýrihóps eða vinnuhóps sem vann ágæta skýrslu þannig að vandamálið er kortlagt og þekkt í meginatriðum hverjar stærðargráðurnar eru. Viðbrögðin sem koma fram hér eru allt annarrar gerðar en vandamálið kallar á þannig að það blasir við að næstu ríkisstjórnar bíður það verkefni að finna lausn á þessu máli, lausn sem er ekki alltaf með það í forgrunni og bakgrunni að einkareksturinn, hvert sem formið er á því, eigi að vera víkjandi og allt fari þetta undir hatt hins alltumlykjandi ríkiskerfis.

Síðan er kafli um Landspítalann sem hefur auðvitað verið í mjög óhefðbundnu umhverfi síðustu misserin eins og við þekkjum öll en það breytir ekki því sem segir hér, með leyfi forseta:

„Fram kom að áhrifa Covid-19 faraldursins gætir víða í starfsemi spítalans, bæði með færri komum á hinar ýmsu deildir auk þess sem skurðaðgerðum fækkaði um 2.000 talsins milli áranna 2019 og 2020. Samdráttur í valkvæðum aðgerðum leiddi til þess að starfsfólk fluttist til í starfi yfir á gjörgæslur og legudeildir til að mæta auknu álagi vegna faraldursins. Áframhald er á sérstöku biðlistaátaki í samráði við heilbrigðisráðuneytið til þess að forgangsraða aðgerðum og vinna á biðlistum sem lengdust vegna faraldursins.“

Þetta er auðvitað mjúklega orðað, ef svo má segja, en staðreyndin er sú að við höfum auðvitað horft á hina ýmsu biðlista lengjast mjög mikið í gegnum þetta Covid-tímabil og var ástandið á mörgum sviðum slæmt fyrir. Á meðan einstaklingar eru á biðlistum, hvort sem það er liðskiptaaðgerð sem beðið er eftir eða einhver annars konar aðgerð, lífsbætandi aðgerð, þá er arðsemin af því að flýta slíkum aðgerðum mjög mikil. Það er ekki bara að lífsgæði einstaklinganna batni hratt, ég ætla ekki segja samstundis, flestir þurfa einhvern tíma til að jafna sig á aðgerðinni sjálfri, en lífsgæði aukast mjög hratt, og það mikilvægasta er að það fólk sem er kvalið daginn út og daginn inn verður miklu virkari þátttakendur á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Ég hvet þá sem þessa hluti skoða sérstaklega til að setja í algjöran forgang að reyna að ná þessum biðlistum niður og fyrir alla muni að hætta þeim furðuæfingum að senda fólk sárkvalið til útlanda til að fá framkvæmda á sér sömu aðgerð og kostar þriðjung að gera hér heima, mögulega með sama lækninum erlendis, t.d. í Svíþjóð, og hefði gert aðgerðina hér heima. Svona rugl stenst enga skynsemisskoðun.

Það er auðvitað ótrúlegt að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum innan borðs — þó að heilbrigðisráðuneytið sé ekki með Sjálfstæðisþingmann sem ráðherra, þá er það þannig að þessar aðgerðir og með hvaða hætti haldið hefur verið á þeim er svo forkastanlega vitlaust að ég vil bara lýsa því yfir hér og nú að mér þykir ámælisvert að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki spyrnt við fótum í þeim efnum. Þá dugar einfaldlega ekki svarið að þetta sé á forræði Vinstri grænna. Það þýðir ekki að segja einn daginn að við séum öll í þessu saman, en að hinn næsta sé látið óátalið að innleiða einhverja marxíska nálgun á heilbrigðismál á Íslandi. Ég skora á þá sem í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sitja núna að taka á sig rögg og spyrna við fótum hvað þessa þróun varðar.

Það lítur hálfhjákátlegt út að sjá síðan auglýsingaspjöld frambjóðenda í prófkjörum þar sem flaggað er miklum áhuga á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og því að hið opinbera kerfi og hið einkarekna þurfi að vinna vel saman og þar fram eftir götunum, á meðan allar aðgerðir þessara sömu þingmanna sem eru að sækjast eftir endurkjöri miða að því að slá fæturna undan hinum einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins sem hefur verið í svo góðri sátt um áratugaskeið þar sem ríkisfyrirkomulagið hefur haldið utan um ákveðna þætti heilbrigðiskerfisins, einkareksturinn aðra og síðan blandað þar sem það hefur hentað. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að líta í eigin barm í þeim efnum og hætta að skjóta sér undan ábyrgð í þessu máli með því að segja að málaflokkurinn sé á forræði Vinstri grænna. Ég hef lúmskan grun um að Vinstri græn hafi áhuga á orkumálum t.d., þó að málaflokkurinn heyri undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ef svo væri ekki þá værum við sennilega búin að samþykkja rammaáætlun um orkunýtingu hér til að ýta undir vöxt og viðgang efnahagslífsins til framtíðar. Ég ítreka: Þessi undansláttur, afsökun þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, heldur ekki nema bara til friðþægingar þá stundina sem henni er flaggað.

Mig langar að koma inn á atriði í nefndarálitinu sem er undir yfirskriftinni „Nemendafjöldi á háskólastigi“. Mér finnst liggja í orðunum í nefndarálitinu að viðbrögð menntamálaráðuneytisins hafi ekki verið eins og hv. fjárlaganefnd hefði viljað hvað varðar upplýsingar um nemendafjölda, þróun hans í framhaldsskólum og háskólum í kjölfar heimsfaraldursins. En það er auðvitað mikil óvissa uppi núna og ég nefni þetta í því samhengi að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kom upp í umræðu um fundarstjórn forseta í gær og benti á fréttir af því að fötluð börn kæmust ekki inn í skóla við sitt hæfi. Það er auðvitað ósköp skrýtið að hér séum við búin að afgreiða fjölda fjáraukalaga í gegnum þennan faraldur og að tilteknir ráðherrar berji sér mjög á brjóst yfir því að nú sé þeim sérstaklega umhugað um börn og þá sem minna mega sín en síðan virðist alveikustu hóparnir gleymdir. Ég veit ekki hvort það er af því að það eru hópar sem eru ekki nógu mikið á samfélagsmiðlum, kannski er það hluti skýringarinnar.

Það er ótrúleg staða í þeim tveimur ráðuneytum sem helst ættu að höndla með þetta, annars vegar félagsmálaráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar, hæstv. félagsmálaráðherra, og hins vegar menntamálaráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra, að svona gloppur myndist þar sem þessir mjög svo veiku hópar, eins og þessi 30 börn sem mig minnir að fjöldinn hafi verið, falla algerlega milli skips og bryggju. Það verður að horfa heildstætt á það með hvaða hætti hugað er að hagsmunum þessara barna og unglinga og þessara sérstaklega veiku hópa því að það er ekki í boði að skilja svona hópa eftir liggjandi óbætta hjá garði.

Síðan er hér klásúla í nefndarálitinu, undir yfirskriftinni „Fjármögnun betri vinnutíma í vaktavinnu og styttingu vinnuvikunnar“. Það er skemmst frá því að segja að þetta hefur allt verið með mikilli furðu, innleiðing styttingar vinnuvikunnar og virðist undirbúningurinn hafa verið mjög brogaður, svo vægt sé til orða tekið. Víða heyrir maður að það sé auðvitað engin stytting vinnuviku möguleg, bara vegna skipulags starfsemi og þar fram eftir götunum. Það eina sem gerist er að hærra hlutfall vinnuframlags viðkomandi er í yfirvinnu en áður. Ef þetta snerist á endanum allt um launin þá er bara best að segja það. Ef það er klætt í þann búning að þetta eigi að vera sérstaklega fjölskylduvænt og raunveruleg stytting vinnuvikunnar og að starfsmenn haldi sömu kjörum þrátt fyrir minna vinnuframlag, þegar raunveruleikinn er sá að þetta er fyrst og fremst leyst með aukinni yfirvinnu, þá blasir við að þetta hefur ekki verið hugsað til enda frekar en svo margt annað sem við eigum við hér á síðustu misserum þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr og samskipta hennar við atvinnulífið, opinbera aðila og launþegasamtök. Ég vil nefna sérstaklega, bara til að halda því til haga, með leyfi forseta, að það segir í nefndarálitinu:

„Samkvæmt kostnaðarmati er áætlað að kostnaður vegna verkefnisins gæti numið um 5,4 milljörðum kr. á ársgrundvelli.“ — Fyrir ríkissjóð. — „Miðað við gildistöku verkefnisins 1. maí sl. gæti þessi kostnaður numið 3,6 milljörðum kr. árið 2021. Á ársgrundvelli er miðað við að um 900 millj. kr. fari til stofnana dómsmálaráðuneytis, sem eru þá lögregluembætti og Fangelsismálastofnun. Um 2 milljarðar kr. fara til Landspítalans og um 1,2 milljarðar kr. til hjúkrunarheimila. Af þeim 1,3 milljörðum kr. sem eftir standa rennur mest til annarra stofnana heilbrigðisráðuneytisins, en einnig er gert ráð fyrir minni hækkun hjá nokkrum öðrum ráðuneytum, t.d. hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna tollvarða og félagsmálaráðuneyti vegna Barnaverndarstofu.

Verkefnið er að fullu fjármagnað með því að nýta almenna varasjóðinn í fjárlögum ársins þar sem umfang hans nemur í heild rúmum 20 milljörðum kr. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun millifæra fjárveitingar til einstakra stofnana vegna þessa verkefnis.“

Þetta verkefni er fjármagnað úr almennum varasjóði, verkefni sem er á ársgrundvelli metið upp á 5,4 milljarða. Ég verð að segja að það kemur mér nokkuð á óvart að sú sé staðan núna undir lok þessa kjörtímabils af því að samningarnir sem slíkir eru ekki nýtilkomnir, sem þessar breytingar byggjast á. Innleiðingin er nýtilkomin en samningarnir sem innleiðingin byggist á eru ekki nýtilkomnir. Þeir sem fara með málið innan ríkisstjórnarinnar virðast að einhverju marki hafa flotið sofandi að feigðarósi í þessum efnum.

Það er auðvitað líka áhugavert að við séum að horfa á það núna, þegar á þriðja tug þúsunda er atvinnulaus, þegar hlutastörf eru tekin með í myndina, séum við að stytta vinnuvikuna án þess að stytta hana raunverulega, að við séum fyrst og fremst að borga meira í yfirvinnu. Ég gef mér að þeir sem koma að þessu borði næst, þegar innleiðingin hefur verið skoðuð, þá er ég að vísa til kjarasamninga og samskipta aðila á vinnumarkaði, hljóti að taka til skoðunar með hvaða hætti hægt sé að gera þetta þannig að eitthvert vit sé í. Allt ber þetta keim af því að menn hafi komið sér í sambærileg vandræði og þegar jarðgerðarstöðinni var komið upp hér fyrir ekki löngu síðan (Forseti hringir.) í miklum flýti sem kallaði fram mikinn aukakostnað vegna þess að menn voru að falla á tíma gagnvart einhverju regluverki.