Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get ekki talað fyrir hönd annarra flokka en sem nýr þingmaður þá tekur maður eftir því að það virðist vera hér á þingi bara almenn hræðsla við það að viðurkenna að kannski væri hægt að vinna einhvern hlut betur. Það eru reyndar mjög þekkt dæmi almennt að það getur verið rosalega erfitt, þegar þú ert búinn að kynna einhvern hlut og tala fyrir honum, að segja: Heyrðu, við þurfum að skoða þetta betur. Mig langar að taka dæmi um þegar slíkt var þó gert hér á síðasta þingi. Þá var hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, bent á að í frumvarpi um, ef ég man rétt, nauðungarvistun sem hann hafði mælt fyrir, væru hlutir sem þyrfti að vinna betur. Þar sýndi einmitt hæstv. ráðherra, dug og þor til þess að segja: Já, hér eru komin fram góð atriði sem við þurfum að skoða betur. En það er rosalega erfitt, virðist vera, innan þessa salar, og ég tala nú ekki um hjá ráðherrum og öðrum, að hreinlega viðurkenna að eitthvað sé ekki nóg. Þeir segja: Við gerum þetta svona og svo lögum við það seinna. En ef við ætlum að laga allt seinna þá þurfum við að fara að hafa bara sumarþing og jólaþing og páskaþing og ýmislegt annað vegna þess að það verður svo mikið sem við skiljum eftir okkur. Ég held að við þurfum að læra að horfa betur á það sem við erum að gera.