Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi þær áhyggjur sem hann hefur og vísar til umsagnar Minjastofnunar, sem ég tek undir með þingmanninum að er afskaplega ítarleg og góð, þá bendir Minjastofnun hér á marga þætti sem hún óskar eftir að verði settir inn í þetta en meiri hluti atvinnuveganefndar, eins og áður sagði, lagði til að tillagan færi fram óbreytt. Ef við skoðum aðeins lið C.8 í þessari þingsályktunartillögu, þar sem Minjastofnun er að ræða um mikilvægi handverksþekkingar, þá kemur þar fram að unnið verði að heildstæðari stefnumótun í mannvirkjagerð og innviðauppbyggingu þvert á stjórnkerfið með aukin gæði, sjálfbærni og öryggi að leiðarljósi. Nú er framkvæmdin á verksviði innviðaráðuneytisins. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessar athugasemdir sem Minjastofnun hefur komið með hér fari inn í þá heildstæðu stefnumótun sem lagt er til að farið verði í undir þessum lið, C.8. Ég held að hún eigi vel heima þar.