Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Í þessari þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026 er ekki talað um myglu. Ég skal nú bara viðurkenna að ég geri mér ekki alveg grein fyrir af hverju það er en væntanlega líta menn svo á að mygluvandamálið eigi kannski meira heima í verklega þættinum heldur en í hönnun þessara bygginga og ég held að menn séu í svona aðgerðaáætlun ekki að fara niður í einhver einstök smáatriði varðandi hönnun mannvirkja. En ég er hins vegar algerlega sammála hv. þingmanni um að það er með ólíkindum, í raun og veru með algerum ólíkindum, það tjón sem íslenskt þjóðfélag, sveitarfélög, íbúar og bara allir eru að verða fyrir vegna myglu. Það er risavandamál sem við þurfum að nálgast og reyna að átta okkur á hvað veldur. Það er ekki bara þannig að þetta sé í gömlum byggingum sem skortir viðhald. Mygla er að koma upp hvort tveggja í endurgerðum húsum sem og nýjum húsum. Við höfum heyrt umræðuna um skóla víðs vegar um landið sem eru margir hverjir illa farnir og mun kosta sveitarfélögin hundruð milljóna að lagfæra. Þannig að ég er algerlega sammála og ég er til í vinnu með hv. þingmanni til að reyna að finna einhverjar leiðir í því. En ég held að sú vinna eigi ekki að birtast endilega í þessari aðgerðaáætlun sem við erum að horfa á hér. En ég er alveg sannfærður um það, miðað við okkar forsögu, mín og hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, að við finnum einhverja aðra vegferð fyrir okkar baráttu í þessum málum þó að það komi ekki fram í þessu plaggi.