Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Með erindi 6. febrúar 2023 sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í samræmi við reglur um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni er að finna niðurstöður úttektar á stjórnsýslu sjókvíaeldis. Úttektin er byggð á beiðni hæstv. matvælaráðherra um þetta efni. Þetta er stór og viðamikil skýrsla sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um á fjölmörgum fundum og hefur hún fengið til sín marga gesti. Tímans vegna ætla ég ekki að lesa þá alla upp en vísa í álit meiri hluta nefndarinnar þar sem hægt er að kynna sér það allt saman.

Að nefndaráliti þessu stendur meiri hluti nefndarmanna í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það eru ásamt mér, sem er framsögumaður, hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigmar Guðmundsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Við viljum taka það fram að þótt um sjókvíaeldi ríki ólík sjónarmið er meiri hluti nefndarinnar einhuga um gildi skýrslunnar og nauðsyn þess að bregðast þurfi við þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun leggur þar til.

Að mati meiri hlutans sýnir skýrslan fram á mikilvægi þess að lagasetningu sé fylgt eftir með markvissum hætti og að stuðlað sé að virkri stjórnsýslu og eftirliti. Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hefur reynst veikburða og brotakennt og ekki í stakk búið til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi hefur að mati Ríkisendurskoðunar ekki verið fylgt eftir með styrkingu stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana. Hvorki hagsmunaaðilar, ráðuneyti né stofnanir eru fyllilega sáttar við stöðu mála og þann ramma sem hefur verið markaður um stjórnsýslu og skipulag sjókvíaeldis.

Virðulegi forseti. Í stað þess að lesa upp allt sem stendur í áliti meiri hlutans ætla ég að stikla á stóru. Í stað þess að rekja fyrst allt það sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og síðan fjalla um umfjöllun nefndarinnar ætla ég hvað varðar ábendingar Ríkisendurskoðunar að vísa í fyrri hluta nefndarálitsins en fjalla um atriðin um leið og ég fer yfir ábendingar meiri hluta nefndarinnar. Á grundvelli úttektarinnar setur Ríkisendurskoðun fram 23 ábendingar sem ýmist er beint til matvælaráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar eða Skipulagsstofnunar. Líkt og ég sagði áðan er þessi skýrsla stór og efnismikil.

Fyrst aðeins um eftirlit og umfjöllun nefndarinnar um þann þátt, þ.e. eftirlit með sjókvíaeldi, en um það er fjallað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Almennt voru gestir sammála um nauðsyn þess að efla þyrfti eftirlit með sjókvíaeldi og vinna að því að bæta skilvirkni þess. Bent var á að tilraunir sem gerðar hafa verið til að styrkja eftirlit hafa ekki gengið eftir. Til að starfrækja fiskeldi í sjó þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun, sem heyrir undir matvælaráðuneyti. Fram kom í skýrslunni og fyrir nefndinni að ekki væri nægjanlegt samstarf þarna á milli.

Að mati meiri hlutans geta ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands ekki starfað hvert í sínu horni án viðhlítandi samstarfs hvert við annað, hvort heldur er við framkvæmd laga, undirbúning reglusetningar eða við aðrar aðgerðir. Tekur meiri hluti nefndarinnar undir ábendingar Ríkisendurskoðunar um nauðsyn þess að bæta úr þessu og beinir því til matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis að ráðast í aðgerðir til að efla samvinnu, samráð og samstarf í málefnum fiskeldis.

Í skýrslunni var samvinna stofnana einnig tekin til skoðunar og að mati Ríkisendurskoðunar eru tækifæri til úrbóta á því sviði. Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við framsetningu skýrslunnar um samvinnu stofnana og að út frá henni mætti álykta að ekkert samstarf væri milli Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Fjallað var um að það fyrirkomulag hefði ekki gefist nægilega vel en það kom einnig fram fyrir nefndinni að starfsfólk Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar væri í reglulegum samskiptum varðandi málefni fiskeldis og heilt yfir væri samstarf þessara stofnana gott. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun vinni þétt saman þegar kemur að eftirliti. Eru stofnanirnar hvattar til að skoða kosti þess að taka upp nánara samstarf þegar kemur að eftirliti.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tekur undir ábendingu Ríkisendurskoðunar. Þótt starfsfólk stofnana eigi í samskiptum er mikilvægt að um það ríki festa. Fyrir nefndinni kom fram að stofnanirnar stefndu að því að styrkja samvinnu sína, einfalda eftirlit og auka skilvirkni. Lýsir nefndin ánægju sinni með það og hvetur ráðuneytin til að beita sér í þá veru.

Nefndin fjallaði einnig um stöðu eftirlitsstofnana gagnvart eftirlitsskyldum aðilum. Fram kemur í skýrslunni að Matvælastofnun þurfi að treysta um of á fiskeldisfyrirtæki við framkvæmd eftirlitsstarfa sinna. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að eftirlit Matvælastofnunar verði eflt þannig að stofnunin geti mætt þeim áskorunum sem felast í vexti sjókvíaeldis. Matvælaráðuneyti hefur upplýst að við endurskoðun laga um fiskeldi og laga um varnir gegn fisksjúkdómum verði lagaákvæðum um fyrirkomulag eftirlits til sérstakrar skoðunar. Meiri hlutinn hvetur ráðuneytið til að vinna markvisst að því að efla eftirlit Matvælastofnunar og leita leiða til að stofnunin fái nauðsynlegar bjargir.

Nefndin fjallaði jafnframt um fjarlægð eftirlitsaðila frá fiskeldisstöðvum. Hvetur meiri hlutinn ráðuneytin til að skoða sérstaklega hvort styrkja megi eftirlit Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar í héraði.

Ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar er að gjaldskrá Matvælastofnunar vegna útgáfu rekstrarleyfa og eftirlits með starfsemi leyfishafa þurfi að endurspegla raunkostnað. Fram kom að stofnunin niðurgreiddi í raun eftirlitsstörf sín á sviði fiskeldis. Fram kom að ráðuneytið hefur stefnt að því að taka upp nýja gjaldskrá og matvælaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga sem miðar að því að styrkja gjaldtökuheimildir Matvælastofnunar. Frumvarpið er nú til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd og verður vonandi klárað hér á Alþingi á allra næstu dögum, eða í það minnsta fyrir þinglok. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að gjaldskrá Matvælastofnunar endurspegli raunkostnað og að hún sé uppfærð reglulega.

Þá vil ég víkja að skipulagi hafs og stranda. Fyrir setningu laga um skipulag haf- og strandsvæða var ekki til staðar skilgreint skipulagsvald á strandsvæðum. Þessi skortur á skipulagsvaldi leiddi til hagsmunaárekstra við nýtingu haf- og strandsvæða, yfirsýn skorti og enginn einn aðili var ábyrgur fyrir samþættingu ólíkra sjónarmiða, ólíkt því sem gerist á landi þar sem skipulagsáætlanir stýra nýtingu. Almennt voru gestir sem komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd jákvæðir gagnvart strandsvæðaskipulagi og töldu það vera mikilvægt stjórntæki en með því væru allir þættir sem varða svæðin dregnir saman. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að skilgreind eldissvæði samkvæmt útgefnum starfsleyfum fyrir sjókvíaeldi og önnur nýting hafi skarast. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að í því ferli sem leiðir til útgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi eigi viðkomandi stofnanir sem málið varðar virkt samráð til að tryggja að eldissvæði og önnur nýting skarist ekki. Þetta snýr m.a. að hvítum ljósgeira siglingavita.

Ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar varðar áhrif gildistöku strandsvæðaskipulags á gildandi starfsleyfi. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti að kanna hvort gera þurfi breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í þá veru að tryggt sé að gildistaka strandsvæðaskipulags og mögulegar breytingar á því veiti stjórnvöldum heimild til endurskoðunar starfsleyfa. Fjallað er um strandsvæðaskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum í skýrslunni sem hæstv. innviðaráðherra staðfesti 2. mars sl. Í skýrslunni og fyrir nefndinni kom fram að við gerð tillagna hefði verið tekið tillit til núverandi nýtingar og skilgreind eldissvæði að meginstefnu höfð innan svæða sem skilgreind eru fyrir staðbundna nýtingu samkvæmt nýtingarflokkum tillagna.

Fyrir nefndinni kom fram það mat umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis að samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hefðu stjórnvöld víðtæka heimild til að endurskoða leyfi og breyta skilyrðum þeirra ef um breyttar forsendur væri að ræða. Á Umhverfisstofnun hvílir sú skylda að meta hvenær um skilyrði um breyttar forsendur sé að ræða. Ráðuneytið tekur þó undir með Ríkisendurskoðun sem bendir á að tilefni sé til að yfirfara í samvinnu við innviðaráðuneyti hvort rétt sé að bæta strandsvæðaskipulagi við upptalningu laganna til samræmis og fyrir skýrleika sakir. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að óvissa ríki ekki um svo mikilvægt atriði og telur meiri hlutinn að það myndi styrkja stöðu strandsvæðaskipulags ef allur vafi er af tekinn.

Þá vil ég fjalla aðeins um burðarþolsmat sem nefndin fjallaði um, sem segir til um hversu mikið aukið lífrænt álag tiltekinn fjörður eða afmarkað hafsvæði þolir án þess að óæskileg áhrif á lífríki komi fram, en eitt af verkefnum Hafrannsóknastofnunar er að framkvæma burðarþolsmat. Þó að Hafrannsóknastofnun hafi þetta hlutverk hefur stofnunin ekki fengið fasta fjármögnun til burðarþolsrannsókna og vöktunar. Vöktun hefur farið fram með stuðningi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis frá árinu 2018, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði matvælaráðherra sem skipar stjórn sjóðsins. Að mati meiri hlutans er það óvenjuleg tilhögun að lögbundið verkefni opinberrar stofnunar sé fjármagnað úr samkeppnissjóði sem allir aðilar sem tengjast fiskeldi geta sótt í.

Meiri hlutinn telur rétt að þetta fyrirkomulag verði tekið til sérstakrar skoðunar við boðaða endurskoðun laga um fiskeldi. Hafrannsóknastofnun skal endurskoða burðarþolsmat eins oft og þurfa þykir samkvæmt lögum um fiskeldi, en bent er á að óljóst sé hvaða skilyrði það eru sem kalli á endurskoðun. Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að sett verði ákvæði sem kveða með skýrum hætti á um hvaða forsendur skuli leiða til þess að burðarþolsmat sé tekið til endurskoðunar. Í skýrslunni og fyrir nefndinni tók matvælaráðuneyti undir nauðsyn þess að skylda Hafrannsóknastofnunar til að endurskoða burðarþolsmat þurfi að hvíla á skýrari forsendum og hyggst ráðuneytið taka það til skoðunar við endurskoðun laga um fiskeldi.

Nefndin fjallaði um erfðablöndun og áhættumat erfðablöndunar. Í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er fjallað um hámarkslífmassa og saga eða ferli ákvörðunar þess stuðuls sem notaður hefur verið til að ákveða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarkslífmassa er rakin. Ég vísa í nefndarálitið vegna þess. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að sá stuðull sem notast var við hafi verið nokkuð nærri lagi miðað við þau gögn sem nú eru aðgengileg.

Meiri hlutinn telur sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á skýringar Hafrannsóknastofnunar og telur að ekki verði horft fram hjá því að við úttekt sína gat Ríkisendurskoðun ekki staðfest að niðurstaða starfshóps Hafrannsóknastofnunar hefði verið byggð á haldbærum og hlutlægum gögnum. Tekur meiri hlutinn undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að notkun stuðla og reiknireglna verði að byggjast á öruggum og staðreyndum upplýsingum úr fiskeldi hér við land því að annars er hægt að draga í efa þær niðurstöður sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggist á. Mikilvægt sé að gagnsæi ríki um ákvarðanir stjórnvalda og að þær byggist á gögnum sem unnt er að sannreyna. Ríkisendurskoðun leggur til að matvælaráðuneytið ráðist í endurskoðun ákveðinna laga og reglna um fiskeldi að því er lýtur að stroki. Ég ætla líka að vísa hér í nefndarálitið.

Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar um að mikilvægt sé að taka ábendingar sérfræðinganefndar alvarlega um að hvaða leyti vöktun og mótvægisaðgerðum af hálfu Hafrannsóknastofnunar sé ábótavant. Fyrir nefndinni kom fram að Hafrannsóknastofnun tekur undir ábendingar um að efla þurfi rannsóknir á áhrifum eldisfisks á villta stofna og mótvægisaðgerðir. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að ákvæði laga og reglna um strok verði endurskoðuð, m.a. hvað varðar skyldur rekstrarleyfishafa til vöktunar í nærliggjandi ám. Ráðuneytið hefur skipað starfshóp um málið og beinir nefndin því til ráðuneytisins að vinna markvisst úr tillögum starfshópsins.

Herra forseti. Að lokum um aðkomu sveitarfélaga. Í úttekt Ríkisendurskoðunar var fyrst og fremst horft til stöðu stjórnsýslu og eftirlits ríkisins gagnvart fiskeldi. Að mati meiri hlutans hefði gefið fyllri mynd af málaflokknum að taka einnig til skoðunar aðkomu sveitarfélaga að fiskeldi, enda liggur fyrir að Ríkisendurskoðun átti ekki viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga. Uppbygging fiskeldis hefur óneitanlega áhrif á sveitarfélög þar sem það er stundað og þau þurfa að bera ýmsan kostnað vegna starfseminnar, til að mynda við uppbyggingu nauðsynlegra innviða. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Tíminn er búinn og ég hef rakið meginatriði álits meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Líkt og ég hef áður sagt vísa ég til álitsins sem fyrir liggur.