Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi þennan kafla sem hv. þingmaður benti á þá er það þannig að ef við horfum á þetta út frá umhverfissjónarmiðum og lífríkinu er hætta á því að við þurfum að leggja niður sjókvíaeldi. Þetta benda aðrar þjóðir á sem hafa sett enn harðari reglur. Þetta kemur fram þegar talað er við þá sem fjárfesta í þessum iðnaði. Við í hv. atvinnuveganefnd fórum til Noregs og hittum aðila í tengslum við þetta. Þeir bentu á að það yrði erfiðara og erfiðara að réttlæta sjókvíaeldi vegna þess hvaða áhrif það hefur á umhverfið.

Við Píratar segjum: Byrjum strax á því að greina hvað annað er hægt að gera ef við þurfum að taka þá ákvörðun að hætta sjókvíaeldi vegna umhverfisáhrifa. Eins og hv. þingmaður benti á tekur tíma að greina það. Byrjum þá vinnu núna. Setjum ekki öll eggin í eina körfu og síðan áttum við okkur á því að gat er á körfunni og eggin brotin. Við þurfum að hafa fjölbreyttari atvinnumöguleika á landsbyggðinni. Við verðum að passa okkur á því að þeir atvinnumöguleikar séu umhverfinu og lífríkinu til góðs. Þess vegna segjum við: Horfum á hvað við getum gert. Byrjum strax á þeirri greiningarvinnu og hugsum hvað annað er hægt að gera ef við endum á því að þurfa að banna þetta.