131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:41]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann heldur að ég sé eitthvað að tala til þessara vinnustaða sem slíkra. Þeir eru bara góðir og ég vona að þeir verði sem allra bestir gagnvart fólkinu. Þetta snýr ekkert að þeim. Þetta snýr að því ástandi sem við höfum í efnahagsmálum, á því er ég fyrst og fremst að vekja athygli og ég skil ekki í hvaða heimi hv. þm. Birkir Jón Jónsson lifir ef hann ekki fylgist með þeirri umræðu.

Ég leyfi mér að vitna til Friðriks J. Arngrímssonar í Viðskiptablaðinu 4. mars sl. þar sem hann talar um efnahagsástandið og erfiða stöðu sjávarútvegsins vegna gengismála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Friðrik segir að útgerðarmenn hafi skilning á því að tímabundin styrking krónunnar hafi að einhverju leyti verið réttmæt meðan mestu áhrifa stóriðjuframkvæmdanna gætir. Þeir hafi verið tilbúnir að taka á sig kostnað vegna þess. Núna sé hins vegar komið langt yfir mörkin.“

Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, og áfram segir hann, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar einföldun að markaðurinn ráði þessu. Að baki þessu öllu liggja ákvarðanir, t.d. ákvarðanir um stóriðjuframkvæmdir, hækkun íbúðalána og hvernig þau vega inn í vísitöluna og síðast en ekki síst vaxtahækkanir Seðlabankans. Sem betur fer virðast allir sjá að þetta gengi stenst ekki til framtíðar.“

„Allir sem ég ræði við,“ segir Friðrik, „eru sammála um að eftir því sem teygist lengur á þessu, þeim mun hærra verði fallið og verðbólguáhrifin meiri og auk þessum munum við sitja eftir með miklu veikari atvinnuvegi en áður.“

Það er þetta sem ég er að vitna í. Ég harma það ef hv. þingmaður fylgist ekki með í þessari umræðu. Það sem ég er að ræða um í þessu sambandi er í fyrsta lagi tímasetning þessara framkvæmda og upphæðir þeirra inn í íslenskt efnahagslíf. (Forseti hringir.) Mér finnst alveg furðulegt ef iðnaðar- og atvinnu- og byggðamálaráðherra segir að það skipti engu máli í þessu sambandi.