131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:31]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það segir hér í athugasemdum við lagafrumvarpið að markmiðið með því sé að koma á fót vettvangi fyrir viðskipti með verðbréf í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og einnig nýjum fyrirtækjum sem eru í hröðum vexti. Ég get tekið undir það að full ástæða er til að koma hér upp markaði eða markaðstorgi fyrir bréf fyrirtækja sem svona háttar til um. Það má segja að frá því að opni tilboðsmarkaðurinn varð ekki að neinu hafi vantað vettvang þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki hafa getað komið hlutabréfum sínum á markað með þeim hætti að gegnsætt sé og jafnræði milli þeirra sem velta fyrir sér hvort þeir eigi að fjárfesta í fyrirtækjum eða ekki. Ég fagna því að þetta sé hér fram lagt og mér sýnist að mestu leyti að hér sé um eðlilega og sjálfsagða löggjöf að ræða.

Eitt sem ég velti þó fyrir mér er að það á ekki, sýnist mér, að setja samræmdar reglur fyrir starfsemi fyrirtækja sem ætla sér að reka markaðstorg, heldur þarf slíkt fyrirtæki að hafa þrjá stjórnarmenn og þeir, þ.e. stjórnin, setja fyrirtækinu reglur. Það er tekið fram yfir hvað þessar reglur þurfa að ná en ég get ekki séð í lagatextanum eða skýringum að það þurfi á nokkurn hátt að staðfesta þessar reglur, að ráðherra þurfi að staðfesta reglurnar áður en fyrirtækinu verður leyft að höndla með þessi óskráðu bréf. Það hlýtur þá að bjóða heim þeirri hættu að það geti orðið um einhvers konar vandræði að ræða þar sem fjárfestar eru ekki varðir. Þó að Fjármálaeftirlitið síðar meir skoði og álykti að ekki hafi allt verið með felldu hefur fjárfestirinn orðið fyrir skaða.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Verða ekki settar samræmdar reglur fyrir starfsemi svona fyrirtækja sem ráðherra þarf að staðfesta?