132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan að við í Frjálslynda flokknum erum alfarið andvígir þessu máli. Við höfum réttilega bent á að það hefði verið miklu skynsamlegra á allan hátt að nýta þær heimildir sem eru fyrir hendi til frestunar á gildistöku þessara ákvæða til 1. maí árið 2009 eða 1. maí árið 2011. Það hefði verið hægur vandi.

Það hefur út af fyrir sig ekkert upp á sig að bera fram breytingartillögur sem verða síðan kolfelldar af meiri hlutanum þannig að við látum það eiga sig. Við erum önnum kafnir menn og höfum nóg annað við tímann að sýsla en að skrifa breytingartillögur og nefndarálit út í loftið. Við stöndum fyrir máli okkar í ræðustól og það hef ég reynt að gera í dag og ég hygg að okkar afstaða hafi komið skýrt fram.

Þar sem við teljum að þetta mál sé svo illa undirbúið og svo mikil vitleysa frá öllu sínu upphafi þá höfum við hreinlega ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu.