136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

tilvísanakerfi í heilbrigðisþjónustu.

[15:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, ég tel það koma til greina — og meira en það. Það er ásetningur minn að kanna hvort ekki sé hægt að koma slíku á. Það verður ekki gert á einhverjum dögum eða vikum en ég hef trú á því að sá sem stýrir heilbrigðisráðuneytinu á komandi mánuðum muni fara í slíkar athuganir. Ég er þessu mjög hlynntur fyrir mitt leyti, vil taka upp það sem Danir kalla valfrjálst stýrikerfi. Ég get getið þess að þetta kom til umræðu á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um helgina og var einmitt samþykkt ályktun þar sem kveðið var á um þetta, að við skyldum halda út á þessa braut. Danir búa við valfrjálst stýrikerfi og ég hygg að 98% Dana nýti sér tilvísunarhlutann en 1,5–2% kjósi að leita beint til sérfræðilæknis sem er þá dýrari kostur. Danir hafa þetta val.

Já, ég tel þetta koma til greina. Hins vegar þurfum við að gæta að því að allar forsendur séu fyrir hendi. Þetta byggir á því að grunnheilbrigðisþjónustan sé styrkt samhliða þannig að hún sé í stakk búin til að mynda grundvöllinn undir valfrjálst stýrikerfi sem ég hef reyndar þegar hafið viðræður um við lækna og aðra sem hlut eiga að máli.