136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir bráðum fjórum vikum síðan vorum við með til umfjöllunar á þinginu lög um Seðlabanka Íslands. Það stóð þannig á að nokkrir nefndarmenn vildu fá málið til frekari skoðunar í nefnd. Þá kom hæstv. forsætisráðherra og sagði: Málið verður að klárast án tafar vegna þess að brýnar efnahagslegar aðgerðir bíða úrlausnar á þinginu.

Nú eru að verða komnar fjórar vikur síðan hæstv. forsætisráðherra lét þessi ummæli falla. Hér erum við með dagskrá dagsins. Í millitíðinni hafa sannarlega engin mál sem varða brýnar efnahagslegar aðgerðir komið fram í þinginu. Þau eru heldur ekki á dagskrá dagsins í dag. Ég kalla eftir því frá forseta þingsins og auðvitað frá hæstv. forsætisráðherra: Hvaða brýnu efnahagsaðgerðir voru það sem átt var við að biðu þess að seðlabankalögin yrðu kláruð og afgreidd á þinginu? Hvaða aðgerðir voru það sem ekki var hægt að koma fram með vegna þess að lögin höfðu ekki verið afgreidd á þinginu og hvenær koma frumvörpin sem varða almenning, heimilin og atvinnustarfsemina með þessum brýna hætti sem þá var rætt um?