136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Með því frumvarpi sem hér kemur til 2. umr., eftir umfjöllun í hv. allsherjarnefnd, er rutt úr vegi þeim hindrunum sem hafa komið í veg fyrir eðlilega öflun upplýsinga hjá hinu sérstaka embætti saksóknara sem sett var á laggirnar með sérstökum lögum til að rannsaka aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins, hina saknæmu þætti sem þar kynnu að leynast.

Með frumvarpinu er skilanefndum gömlu bankana, bankaráðum nýju bankanna, Fjármálaeftirlitinu og þeim sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningum eða gjaldþrotaskiptum gert skylt að afhenda hinum sérstaka saksóknara og embætti hans þau gögn sem hann óskar eftir, þar á meðal skýrslur, minnisblöð, bókanir og samninga og það eins þótt þau séu háð þagnarskyldu. Það er gríðarlega mikilvægt að við veitum þessar heimildir og ég vil taka undir það sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði áðan, það er mikilvægt að um þetta mál er full samstaða í hv. allsherjarnefnd og það er mikilvægt að Alþingi afgreiði þetta mál sem lög hið fyrsta.

Það verður að segja eins og er að það hefur valdið miklum vonbrigðum og undrun í samfélaginu að horfa upp á það að þeir aðilar sem ég taldi upp áðan, m.a. Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar — menn hafa á þeim bæjum beitt fyrir sig bankaleynd þegar óskað hefur verið eftir upplýsingum frá hinu sérstaka embætti saksóknara. Ég er sannfærð um það að þeir þingmenn, sem ég held að hafi verið allir, sem samþykktu að setja lög um stofnun þessa sérstaka embættis hinn 11. desember 2008 hafa ekki ætlast til þess að menn settu slíka þröskulda í veg fyrir rannsóknina. En um leið og frumvarpið sem hér er verður að lögum geta menn ekki gert það lengur vegna þess að með þessu frumvarpi er bankaleyndin að því er þetta embætti varðar lögð af, öll gögn skulu fara þarna inn. Það er mjög mikilvægt að þetta embætti verði sem sjálfstæðast og algerlega óháð eins og mögulegt er, og þess vegna var gott að heyra um helgina fyrirheit frá ríkisstjórninni sem fjármálaráðherra flutti um auknar fjárheimildir til embættisins. Það gefur fyrirheit um að með því verði tryggður greiður framgangur rannsóknar hins sérstaka saksóknara á bankahruninu.

Aðkoma Evu Joly, sem hér var nefnd áður, hefur líka vakið vonir um að þetta verði raunveruleg og öflug rannsókn, ekki síst vegna reynslu hennar og þeirra tengsla sem hún hefur út um allan heim.

Í þriðja lagi vil ég nefna að sérstök rannsóknarnefnd sem Alþingi skipaði til að rannsaka bankahrunið, aðdraganda þess og afleiðingar, er í þessari viku að kalla fyrir sig aðalleikendurna í bankahruninu, bankaeigendurna og bankastjórana eftir því sem fréttir herma.

Loks vil ég nefna fréttir af því að nú er verið að loka, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim, fyrir skattundanskot og loka þessum skattaskjólum og opna það sem áður var hjúpað leynd, m.a. í löndum sem hafa verið til umræðu í tengslum við bankahrunið, og þar á ég við Lúxemborg og Sviss. En það hafa líka verið gefin fyrirheit um að vinna verði lögð í það að endurheimta það sem stolið hefur verið og skotið undan í þessi skattaskjól og það er líka mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að þessi mál verði hreinsuð upp bæði siðferðislega en ekki síður ef um er að ræða hegningarlagabrot. Það er verkefni embættis hins sérstaka saksóknara sem ég styð eindregið að verði eflt til þess að gegna störfum sínum.