140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvers á ég að gjalda að það sé orðið mér að kenna að ríkisstjórnin komi með svona vont frumvarp í þingið? Ég skal taka á mig ýmsar syndir heimsins en ekki þessa.

Varðandi það að einhver sérstakur ófriður hafi verið í kringum sjávarútveginn meðan ég var sjávarútvegsráðherra kannast ég bara ekkert við það. Ég vek til dæmis athygli á því að þegar við fórum í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, voru engar kröfur frá Samfylkingunni um neinar grundvallarbreytingar á sjávarútvegsstefnunni. Niðurstaðan þar var að það ætti að skoða á kjörtímabilinu, á fjögurra ára kjörtímabili, áhrif sjávarútvegsins og þeirra breytinga sem gerðar hefðu verið á sjávarútvegskerfinu í gegnum tíðina á byggðir landsins. Það var það sem ég var með í undirbúningi og átti mjög gott samstarf við samstarfsflokkinn um það.

Varðandi veiðigjaldið er það rétt að í minni tíð var það lækkað. Og hvers vegna var það lækkað? Það var lækkað til að koma til móts við erfiðleika sem urðu í kjölfar þess að við urðum að skera niður aflaheimildir í þorski sem nú eru hins vegar að skila sér í stórauknum mæli, og enn fremur að við slógum af veiðigjald í rækjuveiði sem ekki bar þetta veiðigjald og hefði lagst af (Forseti hringir.) ef það gjald hefði ekki verið lækkað.