141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[20:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á flokksþingi framsóknarmanna, sem var haldið nú í byrjun febrúar, var tekin ákvörðun um að setja fram róttæka byggðastefnu. Ég nefni þetta hér vegna þess að í þeirri byggðastefnu sem samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta nánast allra þeirra sem sátu þingið var talað um mikilvægi opinberu háskólanna, mikilvægi þeirra til að halda öllu landinu í byggð og til að auka fjölbreytni, ekki bara í námi heldur líka til þess að skapa möguleika á nýsköpun í atvinnulífinu og sérstaklega úti á landi.

Hér er verið að leggja til að sett verði á laggirnar einhvers konar samstarfsnet hinna opinberu háskóla. Ég tel að það sé ágætt í sjálfu sér en bið samt fólk og alþingismenn að fara varlega vegna þess að mínum huga má alls ekki sameina til að mynda Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Það hafa heyrst þær raddir að með því sé hægt að ná einhvers konar hagræðingu, en Háskólinn á Akureyri hefur fyrir löngu síðan sannað gildi sitt. Hann býður upp á fjölbreytt nám, öðruvísi áherslur, er sannkallaður landsbyggðarháskóli, er með nám víðs vegar um landið sem hefur gengið gríðarlega vel, fjarkennslu. Það er alveg sama við hvern talað er af forsvarsmönnum þessara háskóla, þeir eru allir sammála um að ef háskólinn missir sjálfstæði sitt muni hann missa þau tækifæri sem eru fyrir hendi.

Háskólinn hefur verið fremstur í flokki þegar kemur að lýðheilsurannsóknum og hefur verið að gera kannanir á alþjóðavísu sem hafa vakið mikla athygli og snúa að heilsu barna og ungmenna. Nú er það svo að fleiri háskólar, eins og Háskólinn í Reykjavík, hafa sýnt þessu verkefni áhuga.

Ég held að það sé því miður ekki til góðs ef menn fara að bítast um einstök verkefni. Þess vegna finnst mér sérstakt í sjálfu sér þegar Háskóli Íslands virðist ætla að feta sig inn á þær slóðir að ætla að fjalla um norðurslóðir og málefni norðurheimskautssvæðisins. Háskólinn á Akureyri hefur einmitt mótað sérstöðu sína með því að vera mjög framarlega í umfjöllun um þessi mál á heimsvísu.

Ég fékk það í gegn á Alþingi að samþykkt yrði þingsályktun þar sem lagt er til að Alþingi greiði fyrir utanumhald um ráðstefnu sem verður haldin um norðurslóðamál einu sinni á ári og um leið verði Akureyri gerð að vettvangi að umræðu um norðurheimskautsréttindi, en það er málefni sem sífellt fleiri þjóðir hafa áhuga á. Þess má geta að Evrópusambandið er að beina sjónum sínum mun meira í norðurátt, Frakkar og Ítalir hafa sett á laggirnar einhvers konar ráðuneyti eða styrkt sitt embættiskerfi til að fylgjast sérstaklega með framgangi mála á norðurslóðum. Þar eru gríðarlega miklar auðlindir, mörg tækifæri og talað er um að í norðrinu sé matarkista framtíðarinnar. Fyrir ekki svo löngu var haldin ráðstefna í Kanada þar sem Hillary Clinton ákvað að ganga út vegna þess að Íslendingum var ekki boðið á ráðstefnuna. Það var kannski eftir að sá atburður gerðist sem íslensk stjórnvöld og núverandi ríkisstjórn áttuðu sig á mikilvægi þessa málaflokks.

Eins og ég kom inn á áðan samþykkti Framsóknarflokkurinn mjög róttæka byggðastefnu sem ber heitið Jafnrétti til búsetu. Í þessari áætlun, sem er einstök að því leyti að enginn annar flokkur er með slíka stefnu, er tekið á þeim vanda sem mörg byggðarlög hafa þurft að búa við en það er viðvarandi fólksfækkun. Norðmenn hafa gengið lengst þjóða í að taka á slíkum málum og þeir hafa samþykkt í þjóðþinginu ákvæði þess efnis að íbúar nyrstu svæða Noregs skuli njóta ýmissa skattaívilnana til þess að sporna við fólksfækkun og koma hagvexti á svæðunum í gang. Og það hefur tekist. Skýrsla OECD sýnir fram á að þetta hefur gengið eftir. Margar þjóðir hafa nú horft til Norðmanna um það hvernig best er að haga þessum málum vegna þess að flestir hafa áttað sig á því að vandinn verður ekki leystur með endalausri umræðu um verkefnið, heldur þarf að grípa til aðgerða.

Mig langar til að koma inn á nokkur mál vegna þess að öll snerta þau hina opinberu háskóla og þá framþróun sem þarf að vera innan þess geira. Í fyrsta lagi vil ég nefna fjarskiptamál. Fjarskiptamál eru í ólagi víðs vegar um land. Ég held að ekki nokkur maður mundi sætta sig við það á höfuðborgarsvæðinu að þar væri hvorki fullkomið GSM- né internetsamband. Þannig er það því miður víðs vegar um land og þessu þarf að breyta með einum eða öðrum hætti. Þetta er forgangsatriði í mínum huga.

Einnig þarf að jafna húshitun á landsvísu. Það er afar ósanngjarnt að þegar við búum svo vel að hafa jarðvarma og getum hitað upp húsnæði, langflest heimili landsins, að það séu enn þá köld svæði þar sem heimilin búa við himinháan raforkureikning vegna þess að þau þurfa að kynda upp húsnæðið með rafmagni. Ég held að það sé eingöngu spurning um jafnrétti til búsetu að þessum málum verði komið á hreint í eitt skipti fyrir öll.

Eins og ég kom inn á áðan ætlum við að kíkja á þær tillögur sem Norðmenn hafa lagt fram. Samkvæmt norskum lögum borga fyrirtæki sem eru hvað fjærst Ósló, á nyrstu svæðunum, ekkert tryggingagjald. Útfærslan er þannig að á Óslóarsvæðinu er greitt um rúmlega 16% tryggingagjald. Það fer svo stiglækkandi eftir því hversu langt fyrirtækin er staðsett frá Ósló, fer algjörlega niður í 0% í nyrstu héruðunum. Þetta skiptir máli vegna þess að menn gera sér grein fyrir því að Ósló er miðpunktur Noregs, eins og höfuðborgarsvæðið á Íslandi er miðpunktur Íslands. Lega landsins er með þeim hætti að mörg svæði hafa ekki aðgang að þeirri þjónustu sem þar er til staðar.

Þeir hafa líka lagt fram tillögur um að fólk sem sækir nám og menntar sig fái afslátt af námsgjöldum ef það flytur aftur til baka í heimahérað. Þannig sé það gerður fýsilegri kostur fyrir ungt fólk að snúa aftur í heimabyggð. Eins og menn vita eru tækifærin á landsbyggðinni því miður oft af skornum skammti og þeim þarf að fjölga.

Þeir eru líka með útfærslu á því að ungt fólk, barnafólk, fái hærri barnabætur vegna fleiri barna og telja að með því sé hægt að sporna við viðvarandi fólksfækkun í landinu. Það hefur tekist, og þetta er eitthvað sem við í Framsóknarflokknum höfum lagt til og fólk getur kynnt sér það á heimasíðu Framsóknarflokksins. Þar eru allar þær tillögur saman komnar sem voru samþykktar á flokksþingi flokksins.

Ég naut þess heiðurs að fá að stýra nefnd sem var falið að móta stefnu um þessi mál. Við töldum að það væri líka vert að leggja til að þeir sem þyrftu að sækja vinnu um langan veg mundu njóta skattaívilnana af einhverju tagi. Við miðuðum við reglur sem eru í gildi í nánast öllum ríkjum Norðurlanda, ekki bara Noregi heldur Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Ástæða þess að þjóðþingin þar hafa ákveðið að fara þá leið er sú að ef einhver einstaklingur sem býr í dreifbýlinu missir vinnuna er afar líklegt að það leiði af sér að ekki bara hann flytji af svæðinu heldur líka fjölskyldan og börnin. Þannig er höggvið skarð í samfélög sem þurfa að vera til staðar til að halda öllum þessum löndum í byggð. Það er að mínu mati algjört forgangsatriði að við séum sammála um að það sé betra fyrir Ísland og íslenska þjóð og framtíð landsins að allt landið sé í byggð eins og kostur er á.

Þessar ívilnanir mundu ekki ná til stórs hluta þjóðarinnar, mundu eingöngu ná til þeirra svæða þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi; á norðausturhluta landsins og Vestfjörðum, vegna þess að það er engum blöðum um það að fletta að fólkið þar fær ekki sömu þjónustu og fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að greiða jafnt hlutfall af launum sínum í skatt. Það hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Háskólanum á Akureyri þar sem kom skýrt fram að þær skatttekjur sem verða til í kjördæminu skila sér því miður ekki til baka eins og þær ættu að gera til uppbyggingar á innviðum samfélagsins.

Svo að ég komi nú aftur að háskólunum búum við svo vel að við höfum háskóla víðs vegar um landið, á Bifröst, Hvanneyri og Hólum. Allir þessir skólar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt, sýnt styrk sinn í að bjóða upp á fjölbreytt nám, sýnt styrk sinn í að þjálfa fólk fyrir atvinnulífið og stuðlað þannig að nýsköpun og framþróun í atvinnumálum.

Það skiptir því öllu máli að þær tillögur sem hér eru lagðar fram verði ekki notaðar sem einhvers konar vísir að því að sameina háskólana með einum eða öðrum hætti. Þá nefni ég sérstaklega Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands.

Fyrir ekki svo mörgum árum varð atvinnulífið á Akureyri og í Eyjafirði fyrir miklu tjóni þegar SÍS-verksmiðjurnar svokölluðu lognuðust út af. Margir misstu vinnuna og ljóst að svæðið í heild sinni mundi eiga erfitt uppdráttar á komandi árum. Þáverandi menntamálaráðherra Ingvar Gíslason, ráðherra Framsóknarflokksins, beitti sér fyrir því að Háskólinn á Akureyri yrði að veruleika, fór þar fremstur í flokki. Hvort sem menn trúa því eða ekki er það staðreynd að fjölmargir höfðu ekki trú á verkefninu og töldu að Háskólinn á Akureyri mundi ekki pluma sig sem sjálfstæð eining og aldrei njóta þeirrar virðingar, þeirrar stöðu sem hann nú hefur í háskólasamfélaginu víðs vegar um heim.

Háskólinn á Akureyri hefur löngu sannað gildi sitt og má í rauninni segja að hann sé jafnmikilvægur Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og Sambandsverksmiðjurnar voru á sínum tíma. Það er gríðarlega mikil atvinna sem skapast, ekki bara í háskólanum sjálfum heldur í ýmiss konar þjónustu vegna þess að til bæjarins flykkjast mörg hundruð ungmenni sem vilja mennta sig og stunda nám sem þar er til boða.

Ég held að það verði ekki nægilega sterkt tekið til orða um það hversu slæm áhrif það hefði á Akureyri, atvinnulífið, framþróun, nýsköpun, ef Háskólinn á Akureyri yrði sameinaður Háskóla Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu nær að skoða hvort Háskóli Íslands eða Háskólinn í Reykjavík séu ekki með of mikið af sams konar námi og hvort þar sé ekki hægt að spara fjármuni fyrir ríkissjóð. Ég vil taka sérstaklega fram að Háskólinn í Reykjavík hefur sýnt þann metnað og dug að vera á margan hátt jafnvel kominn lengra en Háskóli Íslands og það hefur jafnvel gert að verkum að þeir sem stjórna síðarnefnda skólanum hafi hugsað sinn gang og það hefur leitt til framþróunar á mörgum sviðum menntamála.

Í nefndarálitinu er komið inn á þátt sem ég hef rætt í þessari ræðu minni, en meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar áréttar mikilvægi þess að sérfræðingar sjái sér hag í því að búa á Íslandi. Bent er á að margir þættir geti haft áhrif á val fólks á búsetu og mikilvægt sé að tryggja að hér á landi verði ekki atgervisflótti menntamanna og þeirra sem sinna nauðsynlegri þjónustu. Leita verði allra leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Ég tel mjög mikilvægt að þetta hafi komið fram í nefndarálitinu. Við þurfum á næstu árum að taka umræðu um menntamálin í heild sinni, við þurfum að styrkja háskólana okkar, sérstaklega á landsbyggðinni, og gera rekstrargrundvöll þeirra þannig að menn viti að skólarnir séu komnir til að vera.

Ég vil ítreka að við framsóknarmenn höfum lagt fram ítarlega byggðastefnu sem hægt er að finna á heimasíðu flokksins. Þar koma fram afar róttækar tillögur sem munu stuðla að því að jafna rétt fólks til búsetu um allt land. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem er með slíka stefnu á (Forseti hringir.) dagskrá sinni og ég tel mjög mikilvægt að það komi fram hér í umræðunni.