144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í gær voru í boði, gegn gjaldi að sjálfsögðu, pönnukökur með rjóma og sultu. Ég fékk mér eina slíka og settist niður með kollegum mínum í minni hlutanum og stjórnarþingmenn dreif að, sem voru líka með pönnukökur með rjóma. Ég fann á þessum fallega tímapunkti, þegar við settumst þarna niður, að enn er ekki svo illa komið fyrir okkur að góð pönnukaka með rjóma og sultu sameini okkur ekki. Við áttum gott spjall þarna í kaffistofunni. Ríkisstjórnin ætti að þekkja þetta. Hún var mynduð yfir vöfflubakstri, það hafði góð áhrif á samningaviðræður flokkanna í árdaga.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til að draga lærdóm af þessu. Sáttin er kannski ekki í augsýn núna, en við verðum að byggja á því sem sameinar okkur. Ég held að góður fundur, með góðum pönnukökum með þeyttum rjóma — ekki sprauturjóma — og sultu væri bara ágætisbyrjun og við mundum finna samtakamáttinn upp frá því.