149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

fjórði orkupakkinn og sæstrengur.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í því lögfræðiáliti sem hv. þingmaður vísar til kemur fram að ákvæðin um sæstreng taki ekki gildi nema ákveðið verði að ráðast í lagningu sæstrengs. Ég treysti Alþingi Íslendinga mjög vel til að taka ákvarðanir til hagsbóta fyrir land og þjóð. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að árétta að ákvörðun um slíkt verður ekki tekin nema hér.

Sú frétt sem hv. þingmaður vísar til snýst ekkert um að Íslendingar hafi ákveðið að heimila lagningu sæstrengs. Hún lýsir áhuga þessa fyrirtækis, sem hv. þingmaður þekkir mætavel, vegna þess að það var að undirlagi þess sem íslensk stjórnvöld, undir forystu hv. þingmanns, heimiluðu að fara í könnunarviðræður um lagningu slíks strengs. (SDG: Það er ekki rétt.) Það er það sem var gert. Upprunalega var gefin viljayfirlýsing og síðan var komið á könnunarviðræðum um lagningu slíks sæstrengs að undirlagi þessa tiltekna fyrirtækis. (Gripið fram í.) Út úr því kom ekkert, kannski sem betur fer, því að ég (Forseti hringir.) held ekki að það sé rétt ákvörðun (Gripið fram í.) að leggja sæstreng.

Hvað varðar innleiðingu EES-mála finnst mér það harla furðulegt að hv. þingmaður kannist ekki við það ferli sem verið hefur hér við lýði árum saman.