149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar ofboðslega mikið til að halda aðeins áfram spjallinu á þeim nótum sem tveir hv. þingmenn á undan sem töluðu voru á. Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í annað atriði sem hv. þingmaður fór út í í ræðu sinni. Það varðar þetta margumtalaða frosnakjötsmál. Ég hef aðeins gluggað í greinargerð frumvarps sem var lagt fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fann þar, og reyndar m.a. einnig í sjálfstæðri leit á internetinu góða, hæstaréttardóm sem lýsir atvikum sem eru mjög frábrugðin þeim sem koma fram í ræðum um málið. Það eina sem mér dettur í hug að geti útskýrt það er að þetta sé ekki sama málið, að ég hafi fundið eitthvert rangt hráakjötsmál en þar var um að ræða skaðabótakröfu á hendur ríkinu fyrir að setja lög í trássi við skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Í hæstaréttardómnum sjálfum kemur fram, með leyfi forseta:

„Eins og í héraðsdómi greinir var í ákvörðun nr. 133/2007 ekki gerður annar fyrirvari af Íslands hálfu en sá að ákvæði I. kafla Viðauka I við EES-samninginn skyldu ekki taka til Íslands að því er varðaði ákvæði um lifandi dýr og dýraafurðir á borð við egg, fósturvísa og sæði.“

Með öðrum orðum, það var enginn fyrirvari um þetta. Upprunalega var fyrirvari sem var síðan afnuminn, að mér skilst, samkvæmt þessari ákvörðun 133/2007. Þetta gerir það mál mjög eðlisólíkt því sem við erum að ræða hér. Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann hvort við séum örugglega að tala um sama málið vegna þess að ef þetta er sama málið ættu þessi spor ekki að hræða neitt nema að því leyti auðvitað að ef við viljum fá einhverja fyrirvara þurfum við að setja þá.