149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það vantar ekki að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason heldur áfram að koma með ný púsl í það mikla púsluspil sem þriðji orkupakkinn er, en um leið að spyrja nýrra spurninga sem við bíðum svara við.

Hv. þingmaður nefndi fyrirvarana og eins og komið hefur fram hefur hv. þingmaður stýrt rannsókn við leit að þeim. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvað líður þeirri rannsókn? Nú hafa nokkur vitni úr stjórnarliðinu gefið sig fram og komið með ábendingar um hvar fyrirvararnir kunni að leynast. Ég held að komið hafi fram einar fimm til sex mismunandi tilgátur um hvar fyrirvarann gæti verið að finna. Hefur hv. þingmaður náð að kanna þær vísbendingar allar og komast að raun um hvort fyrirvararnir séu á einhverjum þessara staða? Ef ekki, er þá hv. þingmaður kominn á þá skoðun að leit skuli hætt? Getum við afskrifað fyrirvarann? Var hann kannski aldrei til? Svo bætist það auðvitað við að bent hefur verið á að jafnvel þótt fyrirvarinn kynni að vera til einhvers staðar og fyndist væri líklega ekki gagn í honum vegna þess að einhliða fyrirvarar virðast ekki hafa neitt gildi.

Engu að síður tel ég að mikill fengur væri að því ef fyrirvarinn fyndist svo að hægt væri að átta sig betur á því hvað ríkisstjórnin ætlaði sér raunverulega þegar hún fór af stað með þessa leið sína, leiðina sem var notuð til að sannfæra gervalla þingflokka stjórnarliðsins. Það eitt og sér að komast að því hvernig farið var að því að sannfæra allt þetta fólk væri mjög upplýsandi.