149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:17]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður kom inn á síðast er stórkostlega áhugavert efni sem ég hef hugsað mér að reyna að ræða síðar í þessari umræðu en hefði mjög gaman af að hlýða á hv. þingmann velta nánar fyrir sér í millitíðinni, þ.e. samspil milli ólíkra reglugerða á ólíkum sviðum og samspil þessara ólíku reglugerða við meginmarkmiðin. Í Evrópurétti er einmitt lögð mikil áhersla á að túlka út frá markmiðum, en það verður að bíða betri tíma að fá nánari umræðu um það.

Ég hyggst svara spurningu hv. þingmanns um samanburð á íslenska fyrirvaranum, sé hann yfir höfuð til, og norsku fyrirvörunum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá spurningu því að ég hef heilmikið verið að velta fyrir mér þessum norsku fyrirvörum og skoða þá á meðan hv. þingmaður hefur leitt sína rannsókn, leitina að íslenska fyrirvaranum.

Þessir norsku fyrirvarar segja okkur nefnilega heilmikið um málið og hvers kunni að vera að vænta af viðbrögðum Evrópusambandsins við íslenska fyrirvaranum — finnist hann. Þeir segja okkur líka heilmikið um hvernig íslensk stjórnvöld hafa haldið á þessu máli. Mér hefur heyrst á þeim hæstv. ráðherrum sem ég hef spurt um þessa norsku fyrirvara að þeir hafi varla vitað af tilvist þeirra, a.m.k. ekki þekkt innihaldið. Það sætir auðvitað furðu, sérstaklega í ljósi þess hvað Íslendingar líta gjarnan til Noregs þegar kemur að álitamálum um lagasetningar, einkum og sér í lagi á sviði Evrópumála, að stjórnvöld skuli ekki hafa hugað að norska fordæminu, hvort það gæti nýst okkur eða hvort það hefði sýnt fram á að einhliða fyrirvarar héldu ekki.