149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég nefndi í síðustu ræðu minni að ég væri með nokkrar spurningar sem ég teldi nauðsynlegt að svara áður en yrði gengið lengra í innleiðingu á orkustefnu Evrópusambandsins. Ég endaði á því að spyrja: Hvað breytist í orkupakka fjögur frá þrjú? Hver er þróunin þarna á milli? Hvernig verður heildarmyndin þegar innleiðingu á þeim fjórða er lokið? Hvaða áskoranir felast þar?

Nú ætla ég að bæta við einni spurningu sem er sú hvort ACER-stofnunin sé að fá aukin völd með einhverjum hætti. Er það þannig að eftir að orkupakki fjögur hefur verið innleiddur á öllu svæðinu þá sé þessi stofnun komin með nýtt og stærra og meira hlutverk? Felast þá mögulega samhliða þessu breytingar á samstarfsaðila eða þeim aðila sem fer með vald ACER og ESA á Íslandi, Orkustofnun? Breytist hún einnig með einhverjum hætti? Og hver eru þessi auknu völd?

Ég kom reyndar inn á það fyrr í dag, held ég hafi verið, að í texta sem fylgdi tilkynningunni um fjórða orkupakkann frá því á miðvikudaginn í síðustu viku kemur fram að verið er að breyta eðli þessarar stofnunar, ACER, sem fellur ágætlega að þeim viðvörunarorðum eða þeim áhyggjum sem Samtök iðnaðarins hafa í sinni umsögn. Þau gera reyndar ekkert sérstaklega mikið úr orkupakka þrjú en hafa þeim mun meiri áhyggjur af orkupakka fögur. Því held ég að það sé mikilvægt að allir skoði þetta í samhengi.

Ef niðurstaðan er að ACER er að fá aukin völd, hver eru þau þá? Hvert er þetta aukna eða breytta hlutverk sem stofnunin er að fá? Og hvað þýðir það fyrir okkur ef hún fær nýtt og meira hlutverk? Þýðir það að þau sem hún hafði áður hverfa eða bætist ofan á? Breytist eðli stofnunarinnar um leið og þá hvernig?

Ég tel, forseti, að þetta séu allt spurningar sem sé mikilvægt að svara því að þegar menn taka skrefið eins og við gerðum með orkupakka tvö eða aðra raforkutilskipunina og ef menn halda áfram og innleiða þann þriðja í þessari umferð án þess að skoða málið í heild, þá erum við að taka séns eða óþarfaáhættu sem við getum samt séð fyrir ef við förum af vandvirkni yfir þetta mál í dag.

Það er það sem ég fæ ekki skilið, forseti. Hvernig stendur á því að fylgjendur þessa máls, ég ætla að leyfa mér að segja sér í lagi aðrir flokkar eða þingmenn en samfylkingarflokkarnir allir, vilja ekki setjast niður og átta sig á þessari stóru mynd? Það finnst mér með ólíkindum. Maður veltir fyrir sér hvað það er sem býr að baki. Er eitthvað þarna sem við vitum ekki sem mun síðar koma í ljós? Maður hefur ekki hugmynd um það.

Þessum spurningum um aukin völd ACER-stofnunarinnar þurfum við að sjálfsögðu að svara því að þó ekki væri nema með óbeinum hætti myndi þetta hafa áhrif á Íslandi. Ef hlutverk undirstofnunarinnar eða samstarfsaðilans á Íslandi breytist líka þurfum við að sjá það, það getur einnig haft umtalsverð áhrif. Fylgir þessu aukinn kostnaður? Fær þetta apparat einhver ný úrræði til að beita? Er verið að búa til eitthvert nýtt system sem við verðum ekki hluti af eða viljum ekki verða hluti af? Þetta hangir allt á því hvaða breytingar verða gerðar á þessari stofnun.

Ég verð að segja það eftir því sem ég skoða nánar svar utanríkisráðuneytisins við spurningum mínum verð ég fyrir meiri vonbrigðum með hvernig þær eru afgreiddar. En auðvitað er það ráðherrann sem ber ábyrgð á því.