Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem ég er efnislega sammála og ég tel hann nú vera björtustu von Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum og ég ætla að vona að hann taki því ekki sem háði eða taki því illa. Það er bara svoleiðis, það hefur verið regla hér um árabil að þingmenn þessara gömlu kvótaflokka hafa flúið úr þingsal um leið og menn hafa verið að ræða þessi sjávarútvegsmál, enda eru þau náttúrlega endaleysa hvað varðar reglur og spillingu og rugl sem við þurfum náttúrlega að vinda ofan af smám saman. Það eru mikil tækifæri í því. En það er alveg ljóst að hv. þingmaður þekkir ágætlega til sjávarútvegsins og hann gefur þessu frumvarpi augljóslega falleinkunn. Ég held reyndar að margir í meiri hlutanum hafi afgreitt þetta furðulega frumvarp Vinstri grænna með hálfgerðu óbragði út úr nefndinni, sem er ekki skrýtið. Í rauninni er það stórundarlegt að flokkur sem kennir sig við grænt skuli hafa sett þetta frumvarp fram í nafni orkuskipta og hvað þetta allt heitir þegar það er alveg augljóst, frú forseti, að þetta frumvarp mun snúast alveg í gagnstæða átt. Eru einhverjar skýringar á þessu? Telur þingmaðurinn einhverjar skýringar á þessu, að hæstv. ráðherra hafi látið glepjast af þessari dellu, þetta geti leitt til olíusparnaðar og orkuskipta og ég veit ekki hvað þessar klisjur heita. Það er alveg ljóst að þetta mál gengur þvert gegn stefnu Vinstri grænna og þetta mun alveg örugglega, eins og hv. þingmaður leiddi góð rök að, ganga í öfuga átt.