Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[16:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætissvar og tek heils hugar undir að það er ákaflega mikilvægt þegar vinnunni verður fram haldið í ráðuneytinu að það verði horft til þessa. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt að þetta væri í tillögunni, það er svona minn meginmálflutningur í þessu. Ég veit að hv. þingmaður ber góðan hug til minjaverndar og hefur staðið sig mjög vel í þessu máli. Þarna hefur nefndinni bara orðið á einhver yfirsjón, finnst mér, ekki horft nægilega í þetta vegna þess að það kemur alveg skýrt fram af hálfu Minjastofnunar, þetta er mjög skýr og góð umsögn, að hún leggur til að þessu sé bætt inn í textann.

Það er svo annað sem ég rak augun í, undir liðum um samstarfsaðila. Það er bæði í lið C.9 og D.10 talað um samstarfsaðila og þar eru taldir upp Listdansskólinn, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins og fleira. Þarna leggur Minjastofnun til að Minjastofnun verði bætt við sem samstarfsaðila. Það er heldur ekki hlustað á það. Ég held að það hefði nú verið algerlega meinalaust að bæta þeim þarna inn sem samstarfsaðilum. Þarna, finnst mér, hefur bara orðið greinilega einhver yfirsjón í nefndarvinnunni, því miður. En ég vil bara hvetja hv. þingmann, án þess að ég hafi beina spurningu til hans að þessu sinni, til að beita sér fyrir því að þessi vinna fari fram í ráðuneytinu og að Minjastofnun, sem er gríðarlega mikilvæg stofnun, verði ekki alveg skilin út undan í því sem heitir aðgerðaáætlun um málefni hönnunar og arkitektúrs. Þetta höfðar náttúrlega gríðarlega mikið til þessarar stofnunar og varðveislu á okkar íslenska byggingararfi.