Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:31]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er ekki sátt við þetta svar. Rætt var um fleiri egg í körfunni. Við erum með sjávarútveg, við erum með ferðaþjónustu, það er fullt að gerast úti á landi. Þetta er ekki eina eggið fyrir vestan, ég get alveg fullvissað ykkur um það. Við getum verið sammála um að við þurfum að auka eftirlit í héraði. Við þurfum að efla rannsóknir. Við vitum alveg að tækniframfarir og þróun stýrir sjókvíaeldi í aðra átt, lengra út á haf í lokaðar kvíar. Það er heilmikið að gerast. Við þurfum að fylgja því. Ég er ekki talsmaður þess að við skulum nota gamlar aðferðir sem ekki duga. Við þurfum endalaust að vera á vaktinni varðandi þessa grein, sjávarútveg, og allar aðrar greinar. Tækniframfarir og aukin þekking í sjávarútvegi hefur fært okkur til miklu betri tíma en var áður. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála því? Við viljum ekki ölmusu. Við viljum taka þátt í útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Við skulum gera það vel. Erum við ekki sammála um það? Er ekki best að vera sammála um að við þurfum þessar greinar? Við þurfum að byggja vel utan um þær.