154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í gær var hæstv. dómsmálaráðherra spurð hvernig hún réttlætti ómennskuna sem felst í því að brottvísa mansalsþolendum lóðbeint í sömu aðstæður og þær eru að flýja, sömu stjórnvöld og segjast hafa það að stefnu að veita þolendum mansals aðstoð, stuðning og vernd. Hvernig er það stuðningur og aðstoð við þolendur mansals að kippa undan þeim fótunum? Hvernig er það stuðningur að brottvísa þeim í nákvæmlega sömu aðstæður og þeir eru að flýja? Hvernig réttlætir hæstv. ráðherra brottvísun þolenda mansals? Hæstv. dómsmálaráðherra sagðist ekki geta rætt einstök mál.

Vandinn hér er sá, virðulegi forseti, að þetta eru ekki einstök mál. Bent hefur verið á kerfisbundinn vanda í meðferð mansalsmála hér á landi. Skýrsla á vegum alþjóðlegra eftirlitsaðila hefur leitt í ljós að Ísland er og hefur verið viðkomustaður þolenda mansals og hefur m.a. verið bent á að erfitt sé að fá nákvæma mynd af aðstæðum og stöðu mansalsmála á Íslandi vegna þess að aðferðin sem við beitum við að bera kennsl á þolendur er alfarið á forsendum dómskerfisins. Ef gerandinn finnst ekki er ekkert mansal og enginn mansalsþolandi. Sem hluti af átaki stjórnvalda í mansalsmálum voru sett í lög sérstök dvalarleyfi fyrir þolendur mansals og hugsanlega þolendur mansals. Hversu mörg slík hafa verið veitt á undanförnum árum? Eitt árið 2019 og annað 2022. Í svari við fyrirspurn minni segir ráðuneytið að þolendur mansals séu, með leyfi forseta, „að jafnaði […] taldir uppfylla skilyrði fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar eða mannúðarleyfis“, og þetta skekki tölurnar. Ekki var hins vegar hægt að svara því hversu mörg hafa fengið stöðu flóttamanns á þeim forsendum því að það er hvergi skráð.

Oft er sagt að stóri gallinn á kerfinu sé hversu þröngur lagaramminn sé og stjórnvöld séu bara að vinna vinnuna sína, „computer says no“, með leyfi forseta. Ítrekaðar ábendingar (Forseti hringir.) um að við kunnum ekki einu sinni að greina þolendur mansals, hvað þá veita þeim þá aðstoð sem þau þurfa er ekki í samræmi við lög. Það er því ekki stóri gallinn. (Forseti hringir.) Það er stærri galli að kerfið neitar að fylgja lögum vegna þess að það hentar ekki þeim sem valdið hafa. (Forseti hringir.) Rétt eins og ítalska mafían notar íslenska ríkisstjórnin raunveruleg líf fólks af holdi og blóði (Forseti hringir.) til þess að senda öðrum skilaboð. Og forseti, nei, það er ekki það sem lögin boða.