136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það hefði óneitanlega verið gaman ef hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem er formaður iðnaðarnefndar, hefði komið aðeins inn á Helguvíkurmálið en henni gefst væntanlega kostur á því seinna.

Ég vildi aðeins koma því á framfæri að það er ekki að ástæðulausu sem vakið er máls á þessu hér við umræðuna í dag. Það er vegna þess að annar flokkurinn í ríkisstjórninni talar til Brussel og hinn talar sig burt frá Brussel. Það er skýrt. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, formanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, áðan. Það kom raunar líka mjög skýrt fram í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan við Steingrím J. Sigfússon í vefsjónvarpi Morgunblaðsins í gær þar sem hann leggur þunga áherslu á það að við eigum að vinna okkur út úr þeim vanda sem við Íslendingar erum í og menn finni engar töfralausnir í Evrópusambandsaðild eða evruupptöku einhvern tíma í framtíðinni. Steingrímur lagði þunga áherslu á þetta og það er eiginlega alveg óskiljanlegt að þingmenn Samfylkingarinnar skuli reyna að láta í veðri vaka að staðan sé ekki með þeim hætti að flokkarnir séu að tala algerlega hvor í sína áttina. Þetta er athyglisvert vegna þess að annar flokkurinn segir að á næsta kjörtímabili og helst í byrjun næsta kjörtímabils sé umsókn um Evrópusambandsaðild stærsta málið. Hinn flokkurinn segir að þetta eigi að bíða fram í framtíðina og við sjáum að ástarsambandið á milli þessara tveggja flokka er alla vega í orði kveðnu þannig að þeir ætla nánast að ganga sameinaðir til kosninga. Þetta er eitthvað skrýtið og það er auðvitað ekki að ástæðulausu að við reynum að fá skýringar á þessu í dag.

Það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa sagt um að mikil stefnumörkun sé fólgin í því af hálfu Vinstri grænna að málið eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu er náttúrlega eins og hvert annað grín vegna þess að í 15 ár frá því að EES-samningurinn (Forseti hringir.) var tekinn upp hefur enginn stjórnmálamaður á Íslandi talað öðruvísi en svo að málið yrði leitt til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að tilvísun (Forseti hringir.) til þessa er algerlega út í hött og sýnir enga stefnubreytingu í þessum málum.