136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:55]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er hálfhjákátlegt, eiginlega pínlegt, að fylgjast með fulltrúum Samfylkingarinnar ræða málin í þingsal. Það er alveg sama hvaða þjóðþrifamál eru rædd hér, hagsmunir heimilanna eða atvinnulífsins, alltaf koma stöðluð svör frá Samfylkingunni um að lausnin felist í því að ganga í Evrópusambandið.

Hér kom hv. þm. Grétar Mar Jónsson og spurði þeirrar einföldu spurningar hvort til stæði að halda áfram framkvæmdum í Helguvík. Hv. (Gripið fram í.) þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, sá ekki ástæðu til að svara þeirri einföldu spurningu, heldur fór að ræða um Evrópumálin eða spurði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. (Gripið fram í.)

Það virðist sem Samfylkingin eigi bara stöðluð svör við öllum spurningum sem til hennar er beint: Að ganga í Evrópusambandið. Og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er orðinn svo illa haldinn af Evrópuveikinni að hann er farinn að lúslesa drög að landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins og endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins í þeirri von að hann hafi náð einhverjum árangri í að smita okkur sjálfstæðismenn af Evrópuveiki sinni. Og nú hafa þeir snúið sér að Vinstri grænum sem eru töluvert að gefa eftir í málinu. Þessir tveir flokkar ætla síðan að ganga hönd í hönd til kosninga og það verður dálítið gaman að sjá hvernig það kosningabandalag mun virka. Vinstri grænir munu tala gegn aðild að Evrópusambandinu á meðan Samfylkingin vill ganga inn. Samt sem áður halda þeir því fram að ekki slitni slefan á milli þeirra í pólitík.

Það er rangt sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki mótað sér stefnu í Evrópumálum. Stefna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) er sú að það þjóni hagsmunum Íslands best (Forseti hringir.) að standa utan Evrópusambandsins og það viðhorf (Forseti hringir.) viðraði hv. þm. Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) í viðtali við Fréttablaðið sem hér var vitnað til.