136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við höldum hér áfram umræðu um frumvarp um embætti sérstaks saksóknara vegna þess banka- og efnahagshruns sem við urðum fyrir á liðnu hausti. Eins og hv. þingmenn muna var víðtæk samstaða um það á sínum tíma að stofna til þessa embættis. Vissulega komu fram ákveðnar athugasemdir við það enda hefði verið hægt að fara einhverjar aðrar leiðir í þessu sambandi en engu að síður varð niðurstaðan sú að það var góð samstaða í þinginu um að fela sérstökum saksóknara að hafa með höndum rannsóknir á hugsanlegu saknæmu atferli í tengslum við bankahrunið

Nú er embættið tekið til starfa og það er í því samhengi sem hér liggur fyrir þetta frumvarp sem fjallar um valdheimildir embættisins og eins og kom fram í umræðu í gær og rétt er að rifja upp er meginefni frumvarpsins tvíþætt. Annars vegar að afmarkaðar verði með skýrari hætti og rýmkaðar þær heimildir sem sérstakur saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna vegna rannsóknar einstakra mála. Hins vegar að lagt er til að skylt sé að verða við kröfu embættisins um að láta í té upplýsingar og gögn þó að þau séu háð þagnarskyldu samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Hér er vissulega verið að ganga nokkuð á svig við það sem almennt hefur gilt í íslenskum rétti, þagnarskyldan hefur verið rík, en hér er meðvitað verið að draga verulega úr vægi hennar með það að markmiði að upplýsa þau mál sem kunna að varða við refsiákvæði laga og tengjast bankahruninu.

Þetta hvort tveggja er afar mikilvægt. Það er mikilvægt að embætti sérstaks saksóknara hafi þau tæki sem nauðsynleg eru til þess að hann nái markmiði sínu eða markmiði laganna um sérstakan saksóknara. Það er mikilvægt og um það er ekki pólitískur ágreiningur að nauðsynlegt er að rannsaka til hlítar þau mál sem tengjast bankahruninu. Það er nauðsynlegt að þau yfirvöld sem fara með rannsókn þeirra mála hafi víðtækar heimildir og þess vegna er full ástæða til að styðja þetta mál alveg eindregið.

Frumvarpið felur líka í sér og það tengist þessu að það ferli að ráða fólk til starfa verður einfaldað hjá embætti sérstaks saksóknara. Í rauninni er verið að veita undanþágu frá ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um auglýsingaskyldu til að tryggja að ekki þurfi að fara í gang þungt ferli til að ráða starfsmenn. Staðreyndin er sú að þeir starfsmenn sem embætti sérstaks saksóknara hefur áhuga eða þörf á að fá eru í dag annaðhvort hjá stofnunum eins og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra eða auðgunarbrotadeild lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu og slíkum embættum. Þar af leiðandi hafa viðkomandi starfsmenn vissulega farið í gegnum ákveðið ráðningarferli áður en til þessarar tilfærslu kemur.

Það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi að embætti sérstaks saksóknara er hugsað sem tímabundið embætti og þeir sem þangað eru ráðnir koma þar aðeins til tímabundinna starfa en ekki varanlegra. Engin leið er að segja til um á þessu stigi hversu lengi þetta embætti þarf að vera við lýði. Við vonum auðvitað að rannsókn mála gangi hratt en hins vegar segir reynslan það að þegar um er að ræða stór og umfangsmikil og jafnvel mjög flókin brotamál eins og geta verið í tengslum við efnahagsbrot getur tekið verulegan tíma að rannsaka mál og fylgja þeim eftir í gegnum allt ferlið. Því er ljóst að þetta embætti er ekki til einhverra mánaða en það er hins vegar tímabundið og þess vegna er hugsanlega ástæða til að víkja frá þeim ströngu skilyrðum sem almennt gilda í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að greiða fyrir því að þetta embætti geti farið að starfa af fullum krafti og til þess að ekki verði meiri tafir á verkefnum þess en óhjákvæmilegt er.

Vísað er til þess í nefndarálitinu að þetta ákvæði tekur mið af heimild sem rannsóknarnefnd þingsins vegna bankahrunsins hefur til ráðningar fólks. Það hefur ekki verið ágreiningur um það og þarna er um sambærilegt ákvæði að ræða þannig að ekki er ástæða til að gera athugasemdir við það. Þvert á móti er rétt að vekja athygli á því að þessi vilja bæði ráðuneytisins og allsherjarnefndar til að létta á ferlinu í sambandi við þær skyldur sem lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa í för með sér vekur mann til umhugsunar um þær ósveigjanlegu reglur sem gilda í þeim lögum almennt. Án þess að ég vilji fara lengra út í þá umræðu er auðvitað umhugsunarefni að það þurfi sérstakar lagabreytingar til að víkja frá þessum reglum og hlýtur að kalla á það að mínum dómi að hugað verði að breytingum á lögunum sjálfum, lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þannig að svigrúm til að bregðast við aðstæðum eins og eru uppi varðandi hinn sérstaka saksóknara verði aukið og hugsanlega svigrúmið í þeim lögum almennt.

Þetta eru efnisatriði frumvarpsins. Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd höfum stutt þetta mál og munum gera það í gegnum þingið. Við teljum að þetta sé til framfara. Það er eitt atriði til viðbótar sem ég vildi geta um hér sem eðli málsins samkvæmt er ekki innifalið í frumvarpinu en hefur þó náin tengsl við það og það eru spurningar um fjárheimildir embættisins. Þegar upphaflegt frumvarp um sérstakan saksóknara var samþykkt í þinginu fyrir jólin, í desember ef ég man rétt, gátum við þess í nefndaráliti allsherjarnefndar að tryggja þyrfti að fjárskortur stæði ekki í veginum fyrir því að þetta embætti gæti náð markmiðum sínum í sínu starfi. Þar sem hæstv. dómsmálaráðherra er viðstaddur umræðuna vildi ég beina þeirri spurningu til ráðherrans hvernig staðan sé varðandi fjármál þessa embættis. Það var ákveðinn rammi samkvæmt fjárlögum, spurningin er hvort fyrirsjáanlegt sé að sá rammi haldi eða hvort nauðsynlegt sé að auka við fjárveitingar til embættisins og þá hversu viðamikil aukning verður þar um að ræða.

Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning að þrátt fyrir að ég telji að víða þurfi að spara og gæta aðhalds í hinum opinbera rekstri um þessar mundir tel ég að við verðum, fjárveitingavaldið á Alþingi, að verja fjármunum til rannsókna hugsanlegra brota í þessum málaflokki og að fjárskortur megi ekki standa í vegi fyrir því að mál verði upplýst og leidd til lykta fyrir dómstólum með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.