136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:07]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir skýrt svar um að hún telji að í þessari tillögu sem hér liggur fyrir og allsherjarnefnd leggur til felist ekki nein grundvallarbreyting á þeim sjónarmiðum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og hv. þingmenn þess flokks hafa haft uppi varðandi meginreglur sem gilda á vinnumarkaðsrétti á opinberum markaði. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig að telja að það eigi ekki að breytast.

En mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við þær aðstæður sem uppi eru á íslenskum vinnumarkaði, þar sem mörg fyrirtæki og stofnanir berjast í bökkum fjárhagslega, ríkissjóður á í geysilegum fjárhagslegum erfiðleikum, sé ekki ástæða til að taka vinnumarkaðslöggjöfina til endurskoðunar, til hvaða niðurstöðu sem sú endurskoðun kann að leiða. Hagfræðingar hafa verið sammála um að eitt af lykilatriðum fyrir þjóðfélög til að rífa sig upp úr þrengingum sé að vinnumarkaður og vinnumarkaðslöggjöf séu sveigjanleg. Hún er það ekki á Íslandi í dag, a.m.k. ekki hvað varðar opinbera vinnumarkaðinn. Ég legg svo sem ekki sjálfur til einhverjar tillögur í því sambandi, ég tek það fram. En ég spyr: Telur hv. þingmaður að við þær óvenjulegu aðstæður sem uppi eru í samfélaginu og á vinnumarkaðinum núna hvort ekki sé ástæða til að gefa sér tíma til að renna yfir vinnumarkaðsréttinn og vinnumarkaðslöggjöfina og athuga (Forseti hringir.) hvort það megi ekki bæta?