136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[23:04]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók alveg sérstaklega eftir þessari nauðsynlegu og góðu breytingu sem nefndin gerir við a-lið 3. gr. og gerði þess vegna ekki hið sérkennilega orð orkuílag að neinu atriði í máli mínu áðan. Ef ég hefði ekki séð breytingartillöguna og áttað mig á henni hefði ég vafalaust eytt nokkrum tíma í að ræða um orkuílagið en það sem sagt varð ekki.

Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að máli skiptir með hvaða hætti og hvernig vörur eru merktar, að sjálfsögðu skiptir það máli. Á það hefur skort á íslenskum neytendamarkaði í fyrsta lagi að þess væri gætt að vörur væru nægilega vel merktar og í öðru lagi að til væri lagaleg umgjörð um það hvernig skyldi merkja vörur. Það hefur að mínu viti m.a. háð okkur að hluta til varðandi útflutningsvörur okkar að við skyldum ekki hafa strangari og ákveðnari kröfur á innanlandsmarkaði fyrir íslenska neytendur til að skapa aðhald að framleiðslunni innan lands þannig að hún gæti verið og mundi verða líklegri til að ná framgangi á neytendamörkuðum erlendis þar sem ríkari kröfur eru gerðar. Ég deili því alveg tvímælalaust þeim sjónarmiðum og þessu meginmarkmiði með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og þakka henni fyrir að benda sérstaklega á það og það markmið sem verið er að tala um með þessari lagasetningu.

Ég vildi eingöngu vekja athygli á því að mér fyndist samt sem áður, ég leyfi mér að ítreka það í lok andsvarsins, að ástæða væri til að endurskoða markmiðssetninguna til að koma henni á auðskiljanlegri íslensku.