136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[23:07]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en ég sé ástæðu til að taka undir orð hv. þm. Jóns Magnússonar um það hvernig frumvörp eru hreinlega orðuð, þau frumvörp sem eiga uppruna sinn í alls konar Evróputilskipunum og koma hingað í gegnum Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Þar er búið að venja sig á orðfæri sem er mjög sérstakt og sérstaklega notað í þeim frumvörpum sem koma sem tilskipanir frá Evrópusambandinu og er verið að yfirfæra í íslensk lög.

Ég tek undir að full ástæða er til að nefndir þingsins skoði þau vinnubrögð við þýðingarnar vel og reyni að koma frumvörpunum á skiljanlegt mál þannig að allur almenningur eigi þess kost að skilja um hvað frumvörpin fjalla. Hið ágæta orð visthönnun er orð sem ég t.d. hafði ekki heyrt áður. Það getur vel verið að við þurfum að taka upp mörg nýyrði en þau verða þá líka að vera þannig að fólk hafi einhvern skilning á því hvað þau fela í sér. Það þarf að lesa sig í gegnum greinargerð frumvarpsins til að ná skilningi á því um hvað þessi texti fjallar. Hann er býsna tyrfinn. Beina ætti því til Þýðingamiðstöðvarinnar og þeirra sem setja saman slíkan lagatexta í grunninn að þeir reyni að velja orðalag sem er skiljanlegt fyrir allan almenning. Ég heyrði það á ágætum hv. þm. Jóni Magnússyni sem er margreyndur lögmaður, að hann taldi ástæðu til að gera þetta að umtalsefni og er þó enginn nýgræðingur í því að lesa lagatexta. Hann telur ástæðu til að benda á þetta.

Ég vil taka undir það að hér er um neytendamál að ræða og þess þá heldur ætti lagatextinn að vera á því formi að neytendur hafi einhverja möguleika á að skilja þann texta og hann geti í raun orðið framlag til neytendamála hér á landi.

Það var eingöngu þetta, hæstv. forseti, sem ég vildi benda á og taka undir en ætla að öðru leyti ekki að lengja umræðuna.