138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel að hér sé um ákaflega mikilvægt mál að ræða og réttlætismál fyrir samkynhneigða. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að málið er til umfjöllunar í allsherjarnefnd og staðan er sú að við höfum sent það í umsagnarferli og það ferli stendur til 6. maí. Ég athugaði það áðan og sá að nú þegar eru komnar nokkrar athugasemdir til nefndarinnar frá ýmsum hagsmunaaðilum og allir þeir sem hafa þegar skilað inn umsögnum styðja að þetta sé gert.

Ég lít svo á að það sé mjög skýr og afdráttarlaus vilji Alþingis að við göngum þessa braut og ég hef ekki orðið vör við annað innan allsherjarnefndar en það sé þverpólitísk samstaða um að taka málið úr nefnd og gera það að lögum núna í vor. Ég held að það sé rétt sem hv. fyrirspyrjandi kemur inn á, ég hef upplifað mjög sterkt í umræðunni um málið á þingi að vilji þjóðarinnar endurspeglast mjög skýrt í vilja Alþingis. Allir þeir hv. þingmenn sem tekið hafa til máls í þessari umræðu, sama hvar í flokki þeir standa, hafa lýst mjög jákvæðu viðhorfi í garð þessa máls þannig að það stendur ekki annað til af minni hálfu sem formanns allsherjarnefndar og annarra sem sitja í allsherjarnefnd, þó að það séu auðvitað annir í öllum nefndum, en að reyna að gera þetta mál að lögum núna í vor.