138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[14:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er verið að auka þorskkvótann um ein 5 þús. tonn eða 6 þús. ígildistonn á þessu ári. Það er sú aukning sem hæstv. ráðherra telur sig geta farið fram með þrátt fyrir ráðgjöf Hafró. Á næsta ári er hins vegar meiningin að taka þessi 6 þús. tonn af öðrum aðilum og þar af leiðandi er verið að færa vinnu frá einum til annars. Við höfum talið eðlilegt að á næsta ári eða næstu árum mundu menn hafa sama hátt á og á þessu ári, þ.e. að þessi 6 þús. tonn yrðu tekin til hliðar og síðan yrði aflamarkinu úthlutað með sama hætti og á þessu ári. Þess vegna munum við greiða atkvæði gegn þessu ákvæði núna og leggja til að við 3. umr. taki meiri hlutinn þetta til íhugunar og greina.