140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, algjörlega. Til þess að við getum farið að ræða þær skynsamlegu breytingar sem ég held að enginn stjórnmálaflokkur hafi sagt að hann vilji komast hjá þurfum við að fara yfir þau raunverulegu áhrif sem þessi tvö frumvörp hafa á samfélagið í heild, ekki bara sjávarútveginn. Eins og ég benti á hefur sjávarútvegurinn víðtæk áhrif um allt land, líka í Hafnarfirði, líka í Reykjavík, þó að forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga vilji ekki viðurkenna það. Þetta eru nákvæmlega þau áhrif sem við þurfum að skoða víðtækt.

Úr því að sérhagsmuni ber á góma held ég að sérhagsmunirnir í þessu máli séu sérhagsmunir Samfylkingarinnar fyrst og fremst, svo hafa þau Vinstri græna með sér til að styrkja og undirbyggja þá kröfugerð. Það eru hagsmunir og það eru sérhagsmunir Samfylkingarinnar í gegnum tíðina og við sjáum bara hvernig Samfylkingin hefur iðulega nálgast sjávarútveginn og útgerðarmennina í sinni viðverutíð síðan 1995. Það er hennar hagur að bregða upp brenglaðri mynd, að setja upp einhverja aðra mynd af sjávarútveginum en þá raunverulegu. Þess vegna segi ég að þetta sé að verða baráttan gegn sérhagsmunum Samfylkingarinnar í þessu máli því að Samfylkingin sér ekki þá gríðarlegu heildarhagsmuni sem eru fólgnir í því að reka hér góð og stöndug útgerðarfyrirtæki sem skapa störf og gjaldeyristekjur og skapa þannig undirstöðu, m.a. fyrir ríkissjóð sem getur þá staðið undir öðrum mikilvægum verkefnum.