140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ítarleg og ágæt ræða að mörgu leyti hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Hún rakti stefnumál Framsóknarflokksins um jöfnun búsetuskilyrða, jafnræðissjónarmið, hóflega afkomutengt gjald sem veiðigjald og rétt fólks til sjálfshjálpar. Nákvæmlega öll þau sjónarmið sem stefnt er að með þeim breytingum sem standa nú fyrir dyrum, bæði á veiðigjaldinu og stjórn fiskveiða. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því hvar ágreiningurinn liggur raunverulega.

Þingmaðurinn telur að með veiðigjöldum sé verið að leggja á landsbyggðarskatt af því að tekjurnar verði til úti á landi og vísar í ágætar rannsóknir Vífils Karlssonar sem ég hef kynnt mér vel. En ég spyr: Úr því að tekjurnar í greininni verða til úti á landi, á útgerðin þá ekkert að greiða til samfélagsins? (Forseti hringir.) Yrði það ekki landsbyggðarskattur í hvaða formi sem væri, veiðigjaldið sem tekið yrði?