141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum til atkvæða um náttúruverndarfrumvarpið eftir 2. umr. sem var nokkuð sérkennileg en afar fróðleg fyrir þá sem voru fjarstaddir, sem meðal annars var framsögumaður málsins, sá sem hér er í pontunni.

Náttúruverndarfrumvarpið er eitt af merkustu málum vetrarins og ég held að þegar menn líta aftur á þetta merkilega kjörtímabil verði náttúruverndarfrumvarpið líka álitið eitt af merkustu málum kjörtímabilsins. Það er sómi að því fyrir þá flokka sem að því stóðu og verða vonandi í framtíðinni sífellt grænni, grænni en þeir eru núna. Aðrir sem studdu málið hafa líka haft sóma af því. Við verðum þó að muna að margt gott hæfileikafólk lagði að því grunn með hvítbók og frumvarpi og það hefur sennilega farið fram eitthvert víðtækasta samráð sem frumvarp hefur farið í á löggjafarþinginu. Það er dæmigert fyrir viðhorf Íslendinga til náttúru sinnar að þeim þykir vænt um hana og hún skiptir þá máli, um ekkert frumvarp hefur meira verið kvartað undan samráðsleysi.

Þær tillögur sem liggja fyrir eru lagfæringar og betrumbætur á frumvarpinu, eftir umsögnum eftir máli gesta og eftir almennri umræðu. Margt væri um þær að segja sem ekki verður rakið hér en að lokum vil ég geta þess, og misnota hér tíma minn, forseti, að fyrir 3. umr. verða líka bornar upp tillögur til samþykktar sem eru afleiðing þess samkomulags sem hér tókst á undanförnu dægri til þess að tryggja afgreiðslu málsins á þessu þingi.