144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér segir hv. þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar, að ég lýsi frati á málflutning minni hlutans í þessu máli. Það má kannski orða það þannig og ég geri það, vegna þess að endalaust er verið að halda fram röngum staðreyndum. Ég gagnrýni það. Það eru nokkrar staðreyndir sem við skulum halda til haga. Engir samningar undir, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, það er rangt. Það kom vel fram hjá Landsvirkjun í morgun að samningar út af framkvæmdum í Helguvík og verksmiðjur uppi á Grundartanga eru hér undir, algerlega. Það stendur og þarf ekkert að fjalla um það frekar.

Niðurstaða umhverfisráðuneytisins og formanns verkefnisstjórnar eru samhljóða þeirri niðurstöðu meiri hlutans í nefndinni að lögin séu alveg með okkur hvað varðar neðri hluta Þjórsár, en þeir telja Skrokköldu og Hágöngur vera á gráu svæði. Nefndin er í fullu samræmi við lögin varðandi virkjunarkosti við neðri hluta Þjórsár.

Það er talað um línuflutninga og að það eigi að leysa þetta með þeim. Við getum flutt 100 megavött á milli landshluta á 2.500 megavatta kerfi. Það tekur okkur fimm ár að leysa það ef við förum af stað núna í Sprengisandsleið, það tekur okkur 10–12 ár ef við förum hringleiðina, (Forseti hringir.) þannig að það er ekki bráðalausn.

Af hverju er verið að ræða þetta mál? Vegna þess að það er fullkomlega eðlilegt, það er fullkomlega samkvæmt lögum (Forseti hringir.) og það er fullkomlega nauðsynlegt til að halda áfram uppbyggingu á þessum vettvangi í landinu. Það að verkefnisstjórnin eigi að skila af sér á næsta ári og við verðum með á vormánuðum 2017 eitthvert mál til umfjöllunar í aðdraganda kosninga leysir ekki þessi mál.