144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú liggur það fyrir að í raunveruleikanum hefðum við getað afgreitt Hvammsvirkjun hérna í desembermánuði síðastliðnum, þar af leiðandi væri það mál komið í eðlilegan farveg og unnið samkvæmt afgreiðslu verkefnisstjórnar og því ferli sem var ánægjulegt að heyra að m.a. Landsvirkjun telur að við eigum að fylgja, þ.e. fylgja lögunum um rammaáætlun og umfjöllun í verkefnisstjórn.

Það kom fram í ræðu hjá hv. þingmanni að tafir á þessu máli eru svolítið sjálfskapaðar. Það varð umræða um það á sínum tíma að jafnvel þótt það væru fjárveitingar væri ekki búið að setja heimildir til þess að ráðstafa þeim fjármunum til verkefnisstjórnarinnar eða faghópanna. Er búið að leysa þann hnút? Er það í fullum farvegi? Ef svo er, er þá nokkur ástæða til að ætla að menn geti ekki staðið við þá áætlun sem hefur verið lögð fram um að ljúka þessu fyrir 1. september? Þá kæmu faghóparnir strax í upphafi næsta árs, síðan yrði þetta eðlilega ferli um að raða flokkunum. Við erum að tala þar um 26 virkjunarkosti. Væri ekki nær að bíða með þennan slag hér (Forseti hringir.) í einn eða tvo mánuði til þess að hraða ferlinu í framhaldinu með allan stóra pakkann?