145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera svokallaðan spekileka að umtalsefni hér undir þessum lið í dag. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa tæplega 8 þús. fleiri Íslendingar flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Þetta er að gerast þrátt fyrir að hagtölur sýni mikla uppsveiflu. Blaðamaður Kjarnans fer í gegnum þessa hluti í pistli fyrir skömmu. Þar rekst hann á þann vegg sem við alþingismenn í þessum sal höfum líka rekist á í okkar störfum, að það eru ekki til upplýsingar um það hvaða fólk það er sem er að fara frá landinu eða hvaða fólk það er sem kemur til landsins. Hverjar eru bakgrunnsbreytur þessara Íslendinga? Er þetta fólk sem er menntað á einhverjum ákveðnum sviðum frekar en öðrum? Ég hef staðið hér í þessum stól og spurt hæstv. heilbrigðisráðherra og haft áhyggjur af því að unglæknar séu að fara utan í stórum stíl. Hann hefur svarað mér á þá leið að hann viti það ekki af því að við höfum ekki tölur um það. Hagstofan greinir þetta ekki. Það er mjög vont fyrir okkur í allri áætlanagerð og í öllu stöðumati sem við þurfum stanslaust að vera að taka í þessum sal og í þessari vinnu að vita ekki hvað er um að vera. Þarna verður að bæta úr. Við verðum að hafa upplýsingar svo að við vitum um hvað við erum að tala, svo að við getum áætlað af einhverju viti.