145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Undirliggjandi markmið hlýtur að vera að ungt fólk kjósi að búa hér á landi áfram. Við erum hins vegar allt of upptekin við að tala land og þjóð niður. Þá finnst mér tilvalið að við nýtum tækifærið hér til að hefja okkur aðeins upp yfir argaþras hversdagsins og ræða stóru myndina, framtíðarsýnina. Eins og ég sagði er undirliggjandi markmið að sem flest ungt fólk sjái framtíð sína hér á landi og hlakki til hennar.

Ég tel að það séu fjórir þættir sem við þurfum að huga að, treysta og sækja fram í átt að.

Hér þarf að vera ákjósanlegt að ala upp fjölskyldu. Tilfinning mín er að svo hafi verið, ekki aðeins á síðustu árum heldur um langt skeið núna þannig að við förum af stað með það veganesti. Samkvæmt flestum erlendum mælikvörðum stöndum við okkur nefnilega býsna vel.

Hér þarf almenningur að geta búið við mannsæmandi kjör. Þótt enn séu einhverjir sem hafa það ekki nógu gott hefur kaupmáttur hér á landi síðustu eitt til tvö ár batnað, jafnvel svo mikið að aldrei hefur kaupmáttur hækkað jafn mikið á jafn skömmum tíma. Við erum að þokast í rétta átt hvað það varðar en við verðum vissulega að halda áfram.

Þriðja atriðið er að við þurfum að tryggja að ungt fólk hafi getu og burði til að skjóta hér rótum. Við þurfum að tryggja að það hafi færi á að eignast fasteign kjósi það svo. Þetta er mál sem við höfum verið að skoða og margar góðar hugmyndir hafa sprottið upp. Ungt fólk hefur sjálft lagt þar hönd á plóg. Til dæmis má nefna hugmyndir Kristófers Más Maronssonar um að leyfa fólki að nýta lífeyrissparnað tímabundið til fasteignakaupa. Það eru hugmyndir sem ég held að við þurfum að skoða og ræða betur.

Í fjórða lagi þurfum við að tryggja að hér séu atvinnutækifæri fyrir fólk og tækifæri fyrir ungt fólk til að leyfa metnaði þess að njóta sín. Það kann að hljóma eins og klisja en þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að ungt fólk sjái möguleika á að láta drauma sína rætast.

Það er það sem við þurfum að fara að ræða af alvöru. Hvert er langtímaplanið á Íslandi? Ríkið mun aldrei draga vagninn í að búa til þau tækifæri en hins vegar lít ég svo á að það sé hlutverk okkar hér inni að móta leikreglurnar og skapa þess háttar aðstæður að öflugir einstaklingar (Forseti hringir.) geti hrundið hugmyndum sínum í framkvæmd, að ungt fólk sé ekki hlekkjað við báknið sem og sköpunarkraftur þess.