149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum þegar hann segir að við verðum að vera stolt af okkar verkum og halda okkar rétti á lofti, þó að við séum smá. Við erum vissulega smáþjóð í samfélagi þjóðanna en hins vegar erum við fullvalda þjóð sem hefur fullan rétt á því að neita að innleiða málið óbreytt og fara fram á varanlega undanþágu.

Við megum heldur ekki láta hræða okkur til hlýðni, ef svo má að orði komast. Það er greinilega titringur í Noregi yfir því að nú skuli málið vera hér í þinginu og renni ekki í gegn snurðulaust, eins og menn kannski gerðu ráð fyrir. Ég hef haft af því spurnir að það komi einhverjum á óvart sem hafa komið að þessu máli hvað Miðflokkurinn hefur haldið uppi öflugum málflutningi gegn því.

Ef maður rýnir nánar í álitsgerð Baudenbachers segir hann að við Íslendingar og Liechtenstein séum í raun jafnvel í nokkurs konar aukahlutverki, það sé fyrst og fremst Noregur sem stjórni ferðinni í EES-samstarfinu. Það má að mörgu leyti til sanns vegar færa vegna þess að auðvitað er það rétt að Noregur er hryggjarstykkið í þessum samningi. En það breytir því ekki að við erum aðilar að honum og höfum okkar lögformlega rétt.

Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni að við eigum að standa föst á okkar og láta ekki beygja okkur, þó að (Forseti hringir.) Norðmenn séu eitthvað áhyggjufullir yfir því að þetta renni ekki snurðulaust í gegnum þingið.