149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er svolítið sérstakt að sjá hvernig flestir flokkar á Alþingi, aðrir en kannski Miðflokkurinn, hafa orðið líkari og líkari eftir því sem á kjörtímabilið hefur liðið. Nú virðist manni t.d. vera dauðafæri fyrir hinn nýja Sósíalistaflokk til að taka við keflinu af Vinstri grænum í andstöðu gegn hermangi, eins og þeir hafa kallað þetta einhvern tímann held ég, gegn markaðsvæðingu orkuauðlinda og í umhverfismálum o.s.frv. Það virðist vera sem Vinstri græn séu svolítið að gera sig óþörf í íslenskri pólitík með þessu áframhaldi.

Mig langar að spyrja þingmann tveggja spurninga. Annars vegar hvort frekari markaðsvæðing á orkunni muni leiða til áframhaldandi framsals á valdi, geti leitt til þess. Þá er ég vísa til þeirrar þróunar sem virðist vera innan Evrópusambandsins í átt til frekari miðstýringar. Ef markaðsvæðing heldur áfram þá verður meiri miðstýring, það eru gerðar meiri kröfur, alþjóðlegar stofnanir munu vilja stýra málum fyrir Ísland, þannig að markaðsvæðingunni fylgir framsal valds.

Síðan má líka velta því fyrir sér, út af því sem hv. þingmaður hefur rætt hér úr ræðustól, hvort það séu ekki líkur á því að sú þróun sem við höfum séð muni leiða til áframhaldandi hækkunar raforkuverðs. Hefur eitthvað komið fram sem segir okkur hið gagnstæða, þ.e. að þessir pakkar og stefna Evrópusambandsins um sameiginlegan orkumarkað og hreina orku fyrir alla Evrópubúa muni leiða til lækkunar á orkuverði á Íslandi?