150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

nýting vindorku.

[14:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem var alveg prýðilegt. Það vekur auðvitað athygli á því að ráðherrarnir tveir, iðnaðarráðherra annars vegar og umhverfisráðherra hins vegar, virðast horfa á málið hvor út frá sínu sjónarhorni. Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér varðandi það að skýra þetta mál og ramma það inn þannig að það liggi ljóst fyrir. Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru komnir einir 34 kostir til starfshóps um rammaáætlun 4, og það er auðvitað mjög skrýtin staða ef allt er óljóst um það hvort málið heyri yfir höfuð undir rammaáætlun. Síðan væri, ef tími vinnst til, áhugavert að heyra, bara svona út frá almennum nótum, hver afstaða hæstv. ráðherra er til nýtingar vindorku og uppbyggingar vindmyllugarða.